Götuhornið - Karl í kreppu

,,Ég lifi lífinu svolítið eftir hjartanu
,,Ég lifi lífinu svolítið eftir hjartanu" skrifar karl sem er i kreppu Mynd Vbl

Barþjónar á Akureyri eru alltaf svo uppteknir að ég verð að halla mér að skiltastaur Götuhornsins og gráta þar undan óréttlæti og harðneskju heimsins ásamt eigin hjartagæsku og umhyggjusemi - sem er ómæld.

 En málið er semsagt að konan mín skilur mig alls ekki.

Sumt fólk lifir lífi sínu eftir hjartanu, aðrir með höfðinu og enn aðrir eru búnir þeim eiginleika að nota hvort tveggja saman, gott hjartalag og góða dómgreind.

Ég lifi lífinu svolítið eftir hjartanu. Hugdettur mínar eru framkvæmdar tafarlaust og áður en mín ómælda en jafnframt nær ónotaða skynsemi fær ráðrúm til að grípa inn í.  Líf slíks manns getur verið viðburðaríkt og er hann gjarnan með ör á sál og líkama eftir árekstra við hindranir lífsins. En að sama skapi hef ég lifað ævintýri sem aðrir hafa ekki haft aðgang að. Það getur líka verið skemmtilegt að hitta gamla vini og rifja upp röð endalauss vitleysisgangs æviskeiðsins. Og það besta er að ég er með ágæta dómgreind sem ég varðveiti vel og nær ónotaða. Ef til vill mun ég þurfa á henni að halda einhvern daginn.

Kona mín tilheyrir þeim hluta sem notar hjarta og heila samtímis. Mér nýtist þetta vel bæði sökum þess að hún umber mig betur en aðrar konur hafa gert og vegna þessa hefur mér tekist vel að varðveita mína dómgreind ónotaða - enda lýtur hún jafnan í lægra haldi fyrir hennar dómgreind hvort sem er.

En konunni minni er bara fyrirmunað að skilja mig. Sömuleiðis skilur hún ekki það sem ég geri þó að það sé bæði eðlilegt og auðskiljanlegt. Og hún varð meira að segja pirruð þegar hún fann í 17 skipti WD40 brúsa í ísskápnum inni í eldhúsi. "Hvað er þetta að gera hérna enn einu sinni" sagði hún og var greinilega ekki skemmt. Ég hrökk upp úr viðfangsefni mínu, en ég hafði verið að lesa í Heimildinni um einhvern mann sem hefði keypt eitthvað sem hæstbjóðandi á almennu uppboði og selt það aftur með hagnaði meðan hann sat í einhverri nefnd um eitthvað annað.  Ég vissi að blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina sérhæfir sig í dylgjum um misgjörðir manna og ég var að reyna að finna út hvað manngarmurinn átti að hafa gert af sér.

 Af hverju þurfti elsku konan mín að vera með þetta vesen? Var ekki augljóst af hverju þessi WD40 brúsi var þarna? Það er eins og hún viti ekki að maður getur ekki haldið á WD40 brúsa og mjólkurfernu í sömu hendinni. Meðan ég var að setja í þvottavél ég hafði ég munað að ég átti eftir að sprauta efninu á boltana sem halda stigbrettinu á jeppanum svo ég gæti losað þá daginn eftir. Ég tók brúsann og byrjaði verkið. Og svo varð ég þyrstur og ákvað að fá mér mjólk. Það hafði farið WD40 á hendurnar svo ég greip íþróttatopp af konunni úr þvottakörfunni til að þurrka það meðan ég gekk að ísskápnum. Og auðvitað getur maður ekki lagt skítugan íþróttatopp frá sér í ískápnum meðan maður fær sér mjólk. Þetta hefði ég talið að lægi í augum uppi. "Og af hverju er þvottavélin opin og hálffull af óhreinum þvotti?" bætti konan mín við. Ég skildi bara ekki í því að hún væri svona vanstillt.  Sennilega stóð illa á mánuðinum hjá henni en af umhyggjusemi minni og friðarást hafði ég ekki orð á því.  Það er eðlilega í mínum verkahring að verja stöðugleikann á heimilinu.

 Mér brást reyndar um daginn sú bogalist sem er friðargæsla á heimilinu.  Þá hafði komið grein á netinu þar sem talskona Norðurorku bar okkur þau skilaboð að við ættum að spara heitt vatn m.a. í snjóbræðslukerfum. Ég hafði brostið í það samstundis að breyta snjóbræðslukerfinu í glýkol hringrás. Ég hafði reyndar hvorki keypt glykol, forhitara, dælu, rör eða fittings en er ekki vanur að láta þannig smáatriði stoppa mig. Ég var hins vegarrétt búinn að finna rörtöngina þegar ég mundi að ég átti eftir að leita að B. Jensen gjafakortunum sem ég hafði keypt af dóttur minni fyrir jól til að bjarga einhverri fjáröflun sem hún nennti ekki að sinna. Gjafakortunum hafði ég hins vegar týnt ég var að skipta um hjónarúm sem ég hafði keypt í fljótræði á leið minni í BYKO fyrr um daginn. Það var reyndar þess vegna sem ég átti ekkert efni í að breyta snjóbræðslukerfinu. Og það segir sig sjálft að ég get ekki fínleitað í svefnherberginu með risastóra rörtöng í fanginu. Þetta hefði svona skynsöm kona átt að skilja. Og ég skil ekki öll þessi læti útaf einni rörtöng. Þetta er ágæt rörtöng og af öllum mínum verkfærum þá er hún nálægt því að vera minnst olíukámug. Koddaver og lak er alltaf hægt að þvo. Að maður tali nú ekki um hvað það getur verið gott að hafa verkfæri við hendina ef í ljós kemur að samsetning rúmsins var ekki alveg í samræmi við leiðbeiningarnar sem urðu eftir í kassanum þegar ég tók utan af því.

 En nú eru blikur á lofti. Í síðustu viku týndi kona mín inneignarnótu sem ekki fannst aftur. Og vikuna þar áður týndi hún einhverju öðru. Sem betur fer á hún maka sem hefur áratugareynslu af slíku og því leitarstarfi sem því fylgir. Ég fann þetta smáræði þess vegna fljótlega og þurfti hvorki að ásaka börnin um að hafa týnt því né fá að fá hjálp þeira við leitina eins og þegar ég týndi sjónvarpinu í haust. En eftir stendur að kona mín nálgast greinilega efri árin. Fljótlega mun ég þurfa að taka í notkun mína ágætu og vel varðveittu dómgreind og beita henni í þágu fjölskyldunnar. Sennilega er það fjórða vaktin - enn ein vaktin sem leggst á herðar mínar.  Kannski er best að binda konuna bara við staur úti á lóð til að hún ráfi ekki í burtu og fari sér að voða.  Það var gert við mig þegar ég var krakki og bar tilætlaðan árangur.

 

Þessi afreksstefna konu minnar varðandi heimilishaldið er að mínu viti ekki rétt nálgun. Það geta ekki allir verið afreksmenn. Áhugamennska er besta nálgunin fyrir flesta og ég er einn þeirra. Nú þarf ég bara að finna borvélina og klára að festa hilluna sem við feðgarnir byrjuðum að setja upp í sumar.

 

Nýjast