Góður heyfengur eftir sumarið
„Heilt yfir hefur heyskapur gengið vel hér á svæðinu og heyfengur eftir sumarið er góður,“ segir Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar.
„Hlýindunum var nú ekki fyrir að fara í júlí,“ segir Sigurgeir en veðurfar í þeim mánuði var ekki upp á það besta, mánuðurinn frekar kaldur, en hann segir flesta bændur hafa lokið fyrri slætti þegar halla fór undan fæti og kuldatíð gekk í garð. „Sumir eru búnir að slá tvisvar og bíða eftir að slá þriðja sinni, en á einstaka bæjum þarf að slá hluta af túnum þrisvar, sprettan er svo mikil,“ bætir hann við en slíkt eigi einkum við um bæi frammi í Eyjafirði.
Kuldakaflinn hægði þó verulega á öllum vexti og nefnir Sigurgeir korn sem dæmi og kartöflur. Sólríkur ágústmánuður geti skipti þannig sköpum varðandi kornið og að ná fyllingu í það. „Þetta hefur verið í lagi það sem af er og alls ekki hægt að gera ráð fyrir að allir dagar bjóði upp á gott veður hér á okkar norðlægu slóðum,“ segir hann. Kornuppskera geti orðið með ágætum verði veðurfar hagstætt nú í ágústmánuði.