20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Unnið að tillögu um 6 gjaldskrárlausa tíma í leikskólum
Minnisblað með tillögu um gjaldfrjálsa 6 tíma í leikskólum á Akureyri var kynnt á fundi fræðslu- og lýðheilsuráðs og tekjutengingu leikskólagjalda. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs og verða gerðar stöðuskýrslur að liðnum 6 og 12 mánuðum frá upphafi verkefnisins. Gert er ráð fyrir að breytingar taki gildi frá og með 1. janúar 2024.
Þessa vinnu mál rekja til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 þegar kjörnir fulltrúar lýstu yfir vilja til að tekjutengja leikskólagjöld og í framhaldinu var frið að skoða möguleika á 6 tíma gjaldfrjálsum leikskóla með tímagjaldi fyrir viðbótartíma.
Tillaga er um 6 tíma gjaldfrjálsan tíma frá 8 til 14 á daginn. Gert er ráð fyrir tímagjaldi fyrir og eftir þann tíma. Kostnaður þeirra sem nýta 8,5 klukkustunda dvalartíma á dag gæti hækkað um 11% að því er fram kemur í minnisblaðinu og miðað við ákveðna leið. Samhliða verður unnið að tekjutengingu á gjöldum og tekið tillit til hjúskaparstöðu foreldra, þ.e. einstæðir foreldrar munu áfram njóta afsláttarkjara líkt og verið hefur.
Stytta vinnutíma barna og auka samveru með foreldrum
Markmið með þessari breytingu er að efna loforð meirihluta bæjarstjórnar um tekjutengingu og jafnvel frjálsan leikskóla þó ekki sér að því er fram kemur í minnisblaðinu hægt að ganga alla leið að þessu sinni.
Ein hugmynd er að í þessu fyrirkomulagi felist hvati fyrir foreldra að stytta „vinnutíma“ barna sinna og lengja þannig samverutíma foreldra og barna. Um leið skapast svigrúm fyrir leikskóla að mæta kröfum um styttingu vinnuvikunnar og undirbúningstíma starfsfólks en þannig er unnið að bættu starfsumhverfi leikskólans. Ljóst þykir að starfsumhverfið sé krefjandi og hlutfall fagmenntaðs starfsfólks í leikskólum bæjarins hefur lækkað.
„Hugmyndir sem þessar hafa vakið umræðu í samfélaginu og hefur Jafnréttisstofa bent á að þau sveitarfélög sem hyggist fara þessa leið hugi að því hvort ákvarðanatakan sé út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Einnig að skýrt sé hvert markmið sveitarfélagsins sé með ákvörðuninni, hvort leiðir samræmist markmiðum og hvort samráð hafi verið haft við hagsmunahópa,“ segir í minnisblaðinu.
Konur 95% starfsfólks leikskólanna
Einnig kemur fram að af þeim 434 einstaklingum sem störfuðu við leikskóla Akureyrarbæjar eru 411 konur eða 95%. „Er því ljóst að verið er að huga að bættu starfsumhverfi stórrar kvennastéttar með möguleika á styttri vinnuviku, minna álagi og efndum um kjarasamningsbundinn undirbúningstíma,“ segir ennfremur og að samtal hafi átt sér stað um hugmyndina við stjórnendur leikskólannasem líta þessar breytingar jákvæðum augum en til stendur bera hugmyndina og drög að verðskrá undir hagsmunahópa foreldra og kalla eftir áliti Jafnréttisstofu á útfærslunni.
Ljóst er að þessar hugmyndir munu draga úr tekjum bæjarins og eru það foreldrar leikskólabarna sem njóta ávinningsins. Mestur er ábati fyrir þá sem geta nýtt sér 6 tíma gjaldfrjálsan leikskóla, en töluverð lækkun kemur til þeirra sem geta nýtt styttri en 8 tíma dagvistun hvaða leið sem yrði valin.