Gervigrasvellinum á Húsavík lokað vegna bilunar

Húsavíkurvöllur. Mynd fengin af vef norðurþings
Húsavíkurvöllur. Mynd fengin af vef norðurþings

Vegna bilunar í dælubúnaði hefur íþrótta- og tómstundafulltrúi Norðurþings tekið ákvörðun um að loka gervigrasvellinum á Húsavík tímabundið. „Ákvörðunin er tekin með það fyrir augum að hlífa vellinum og koma í veg fyrir skemmdir. Vegna áðurnefndar bilunar og mikils kulda er völlurinn ónothæfur og ekki óhætt fyrir völlinn né iðkendur að æfa þar sem stendur. Bilunin er þess eðlis að dæla í borholu bilaði og smíða þurfti nýja dælu sem er væntanleg til landsins í lok febrúar. Mögulega verður völlurinn opnaður fyrr ef hlýnar í veðri og klaki fer af vellinum,“ segir Kjartan Páll Þórarinsson,
Íþrótta- og tómstundafulltrúi Norðurþings í tilkynningu.

Fjölskylduráð hafði áður til umfjöllunar erindi frá Völsungi varðandi aðstöðu til knattspyrnuiðkunar. Vegna tímabundnar bilunar á hitakerfi gervigrass safnast fyrir meiri snjór en ella á vellinum.
Félagið óskaði eftir því að völlurinn verði ruddur fyrir æfingar eða knattspyrna fái fleiri tíma í íþróttahöllinni. 

Fjölskylduráð hafnaði erindinu á grunni þess að ekki sé næg þekking til staðar á því hvort mokstur með vinnuvélum muni skemma gervigrasvöllinn eða ekki.

Þá segir í bókun ráðsins að verið sé að athuga með kostnað og möguleika á að útbúa vinnubíl íþróttavalla (Kubota) til moksturs á gervigrasvellinum. Vanda þurfi til verksins svo tjón verði ekki á vellinum og er íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að fylgjast með verkinu. Þangað til að niðurstaða verður komin í það mál vill ráðið benda á þann möguleika að hægt er að handmoka völlinn eins og gert er bæði hjá KA og Þór á Akureyri.

Ráðið bendir einnig á að hægt er að nýta sparkvellina við Borgarhólsskóla að einhverju leyti sem tímabundna lausn.
Þá benti ráðið á að Völsungur hefur yfirráð yfir meirihluta þeirra tíma sem í boði eru í íþróttahöllinni, Aðalstjórn Völsungs sé því best til þess fallin að hliðra til tímum á milli deilda svo að sem flestir fái einhvern æfingatíma.

 

 

Nýjast