27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Fyrsta doktorsvörnin við Háskólann á Akureyri
Í dag, þriðjudaginn 11. október 2022, fer fram fyrsta doktorsvörnin við Háskólann á Akureyri einungis fimm árum eftir að háskólinn fékk heimild til að bjóða upp á doktorsnám.
Vörnin hefst kl. 13 í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri og er öllum opin. Doktorsritgerð Karenar Birnu Þorvaldsdóttur ber heitið Að skilja og mæla hindranir þess að leita sér hjálpar eftir áfall: Þróun á mælitæki með blönduðum aðferðum.
Ritgerðin var unnin undir leiðsögn Sigríðar Halldórsdóttur, prófessors við Háskólann á Akureyri. Auk hennar voru í doktorsnefnd Denise Saint Arnault, prófessor við University of Michigan í Bandaríkjunum, Rhonda M. Johnson, prófessor við University of Alaska Anchorage í Bandaríkjunum, og Sigrún Sigurðardóttir, dósent við Háskólann á Akureyri.
Andmælendur eru Stefanía Ægisdóttir, prófessor í sálfræði við Ball State University í Bandaríkjunum, og Maria Wemrell, dósent í lýðheilsuvísindum við Lunds universitet í Svíþjóð.
Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms, og Kristján Þór Magnússon, settur forseti Heilbrigðis-, viðskipta-, og raunvísindasviðs, munu stýra athöfninni en eftir hana verður boðið til móttöku með léttum veitinum.
Um doktorsefnið
Karen Birna Þorvaldsdóttir er fædd árið 1993 á Akureyri. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2013, B.A. gráðu í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2017 og M.S. gráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi frá sama skóla árið 2019. Karen Birna hóf doktorsnám í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri árið 2019. Hún tók hluta af doktorsnáminu við University of Michigan í Bandaríkjunum sem Fulbright styrkþegi og dvaldi þar við Michigan Mixed Methods rannsóknastofnunina. Meðfram náminu hefur Karen Birna kennt við Háskólann á Akureyri sem stundakennari, gegnt stöðu formanns Rannsóknamiðstöðvar gegn ofbeldi og setið í stjórn Bjarmahlíðar – miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.
Doktorsverkefnið var styrkt af Jafnréttissjóði Íslands, Fulbright stofnuninni, Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri og University of Michigan Institute for Research on Women and Gender.