Fullt alla daga vikunnar í Sjóböðunum
Veðurblíðan hefur leikið við Norðlendinga nær samfellt í einn mánuð og vel það, enda hefur ferðaþjónustan blómstrað í sumar.
Sjóböðin á Húsavík er engin undantekning en þar hefur verið stöðug umferð frá því um miðjan júní. Ég leit við í Sjóböðunum á dögunum til að hitta á Ármann Örn Gunnlaugsson framkvæmdastjóra en hann tók til starfa í vor. Það var reyndar enginn hægðarleikur að ná tali af honum því hann var önnum kafinn við afgreiðslustörf. Starfsmaður á frívakt sem ég hitti á sagði að Ármann gengi í öll störf sem þyrfti að vinna og starfsliðið væri afar ánægt með hann. „Það er aldrei neitt vesen þegar Ármann er á staðnum,“ sagði hann.
Ég náði loks nokkrum mínútum með framkvæmdastjóranum inni á skrifstofu en hann stóðst þó ekki freistinguna og afgreiddi nokkrar netbókanir á meðan á spjalli okkar stóð. Ármann sagði að sumarið væri búið að ganga afar vel. „Sérstaklega síðan upp úr miðjum júní. Sumarið fór svolítið hægt af stað hvað fjölda gesta varðar en síðan kom gríðarlegt stökk í kringum 20. júní. Þá byrjaði í rauninni fjöldinn að tvöfaldast á milli daga og hefur haldist þannig síðan,“ segir hann og bætir við að það vanti sko ekki gestina.
„Við getum ekki kvartað yfir því. Við höfum lent í því fleiri daga að þurfa að vísa fólki frá. Sérstaklega yfir miðjan daginn þegar mesta traffíkin er.“
Íslenskir ferðamenn í meirihluta
Ármann segir að það sé búið að vera talsvert af erlendu ferðafólki það sem af er sumri, mun meira en sumarið í fyrra. Samt sem áður eru Íslendingar enn í meirihluta. „Þá erum við að tala um innlenda ferðamenn, það er ekki mikið af heimafólki sem er að komast ofan í böðin núna þessa dagana,“ segir hann. Fjöldi heimafólks eru árskortshafar og segir Ármann að heimafólkið sér búið að aðlaga sig að aukinni umferð um háannatímann. „Það virðist vera komin ákveðin hegðun á árskortshafana. Þeir virðast gera sér grein fyrir því hvenær er hægt að fara og hvenær ekki. Þetta fólk er að koma mest snemma á morgnanna strax eftir opnun eða um kvöldmatarleytið. Um miðjan dag er hreinlega erfitt að komast að,“ útskýrir Ármann og bætir við að síðustu vikur hafi viðskiptavinir verið hvattir til að hafa samband og bóka fyrirfram. „Það er eina leiðin til að tryggja sér pláss ofan í á einhverjum tilgreindum tíma.“
Fólk á erfitt með að trúa því stundum að fyrirframbókanir séu nauðsynlegar að sögn framkvæmdastjórans. „Íslendingum sérstaklega sem eru á ferðalagi finnst skrítið að þurfa að bóka sig. Algeng opnun á símtali sem við fáum er: Þarf nokkuð að bóka? Svo er fólk oft hissa þegar maður leiðréttir þann misskilning. Það er bara búið að vera kjaft fullt í netsölu og vissulega líka í lausatraffíkinni sem við reynum eftir bestu getu að koma að eins og hægt er.“
Allir dagar eins
Ármann segir engan dagamun vera hvað fjölda gesta varðar og gildir einu hvort það sé helgi eða virkur dagur.
„Það er hætt að skipta máli. Það var þannig framan af sumri en um síðustu mánaðamót breyttist það. Allt í einu var bara metdagur á mánudegi og svo hefur það undið upp á sig jafn og þétt. Það er eins með Mærudagshelgina, hún var bara eins og hver annar dagur. Við bjuggumst kannski við meiri sprengingu af fólki að reyna að komast ofan í en þetta var bara eins og stórir dagar sem eru búnir að vera undanfarnar vikur. Þannig að það skiptir ekki máli hvaða vikudagur er.“
Veðurguðirnir hafa verið með Húsvíkingum í liði undan farnar vikur og Ármann dregur ekki dul á að það hafi áhrif. „Veðrið hefur unnið með okkur, ekki spurning. Það er búið að vera núna síðan upp úr miðjum júní; 20 gráður og sól nánast upp á dag, þannig að það er ekki skrítið að fólk flykkist hingað norður og austur þar sem veðrið er búið að vera best. Þetta er dæmigert hjá Íslendingum að elta sólina, við erum þekkt fyrir það. Veðrið hefur vissulega hjálpað okkur.“
Skerpt á sóttvörnum
Nýjustu sóttvarnartakmarkanir stjórnvalda hafa ekki teljandi áhrif á rekstur Sjóbaðanna að sögn Ármanns. „Ekki enn þá, síðustu takmarkanir eru ekki að koma við okkur að verulegu leiti. Við erum vissulega varkárari og höfum skerpt á sóttvörnum. Við höfum verið að taka fastar á reipunum og erum komin niður í 75% nýtingu á okkar heildarafköstum. Það eru einu takmarkanirnar sem snerta okkur beint. Nú megum við aðeins taka við 120 gestum í einu en ekki 160,“ útskýrir Ármann en bætir við að það breyti ekki svo miklu þar sem ekki var verið að hleypa hámarksfjölda ofan í sjóböðin áður en aðgerðir stjórnvalda tóku gildi.
„Við höfum meðvitað tekið þá ákvörðun upp á síðkastið að hleypa færri ofan í en leyfið okkar gefur til kynna vegna þess að við viljum halda upplifun gesta góðri. Þegar við förum yfir ákveðinn þröskuld, þá getur orðið töluvert öngþveiti í klefunum og upplifunin missir aðeins gæðin. Auk þess erum við að vinna með óreglulegt flæði inn og út hjá okkur. Við erum með ákveðna tækni við að reikna það út og þurfum að tryggja að fyrirfram greiddar og bókaðar komur komist að á réttum tíma. Við getum ekki áætlað 100% hvernig flæðið af fólki er upp úr böðunum á sama tíma. Við þurfum þess vegna að vera með „böffer“ til að geta staðið við þær bókanir sem við erum með á heimasíðu. Við höfum verið í kringum 130 manns og þá farið að hægja á því að hleypa fólki inn. Nú lækkum við þær tölur aðeins til að vera undir þessum 120 manna takmörkunum. Þannig að áhrifin eru óveruleg,“ segir Ármann og bætir við að aðsókn hafi síður en svo minnkað eftir að takmarkanir stjórnavalda tóku gildi. „En við tökum eftir því að fólk er varkárara hvað sóttvarnir varðar."