27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Frú Ragnheiður óskar eftir stuðningi bæjarins
Bæjarráð Akureyrar frestaði afgreiðslu á erindi frá Eyjafjarðardeild Rauða krossins sem óskað eftir stuðningi við starfsemi Frú Ragnheiðar á Akureyri. Verkefnið Frú Ragnheiður er fjármagnað af Rauða krossinum við Eyjafjörð. Áætlað er að kostnaður við það nemi um 5 milljónum króna í ár. Verkefnið hefur ekki fastan samning við ríkið né sveitarfélög og rekstrargrundvöllur er því byggður á styrkveitingum frá ári til árs.
Einhverjir styrkir hafa fengist frá fyrirtækjum og félagasamtökum en þó ekki í ríkum mæli. Sjúkratryggingar Íslands styrkja verkefnið á landsvísu og fær verkefnið á Akureyri hluta úr þeim potti.
Verkefnið hefur vaxið að umfangi, mun fleiri hafa sótt þjónustu á fyrstu mánuðum þessa árs miðað við allt árið í fyrra. Frú Ragnheiður sinnir grunnheilbrigðisþjónustu, nálaskiptiþjónustu og sálrænum stuðningi. Matarbökkum er dreift til skjólstæðinga í samvinnu við veitingahús í bænum, sem og fatnaði.
Útlagður kostnaður hefur tvöfaldast milli ára
Undanfarin ár hefur verið lagt út í talsverðan kostnað við verkefnið norðan heiða m.a. með kaupum á bifreið og rekstri hennar og starfsmaður hefur verið ráðinn í hlutastarf vegna aukinna umsvifa. Útlagður kostnaður vegna búnaðar sem verkefnið dreifir til sinna skjólastæðinga hefur tvöfaldast á milli ára.
Fram kemur í beiðni Eyjafjarðardeildar að verkefnið létti á opinberum aðilum sem sinna jaðarsettum einstaklingum með fíknivanda, en það nái að hluta til einstaklinga sem ekki leita eftir þjónustu annað. Verkefnið sé því mikilvægt fyrir skjólstæðingana en ekki síður fyrir samfélagið í heild.
Bæjarráð frestaði afgreiðslu erindisins og fól bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga. Fulltrúar Samfylkingar, VG og Framsóknarflokks bókuðu á fundi bæjarráðs að þeir teldu mikilvægt að styðja við starfsemi Frú Ragnheiðar á Akureyri og því ætti bæjarráð að taka jákvætt í erindið og undirbúa drög að samkomulagi við Eyjafjarðardeild Rauða krossins.