27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Fréttatilkynning
Opinn vinnufundur vegna framkvæmdaáætlunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða - Kynningar á tillögum þemahópa
Norðurslóðanet Íslands, fyrir hönd utanríkisráðuneytisins, boðar til opins vinnufundar í húsnæði Háskólans á Akureyri og í fjarfundi þann 28. september nk. 8:30-16:00.
Ný stefna Íslands í málefnum norðurslóða var samþykkt með þingsályktun á Alþingi 19. maí 2021. Í stefnunni er kveðið á um að utanríkisráðherra móti áætlun um framkvæmd norðurslóðastefnunnar í samráði við aðra hlutaðeigandi ráðherra.
Í mars sl. var haldinn opinn fundur á Akureyri með hagsmunaaðilum og áhugasömum um málefni norðurslóða. Í framhaldi af honum hafa um 100 einstaklingar unnið í 5 þemahópum að tillögum sem tengjast afmörkuðum liðum stefnunnar. Hóparnir fimm hafa unnið með eftirfarandi málaflokka:
- Alþjóðlegt samstarf og skuldbindingar
- Loftslagsbreytingar, vistkerfi og mengunarvarnir
- Samfélag og innviðir
- Uppbygging og framlag til málefna norðurslóða
- Leit og björgun, fjarskipti, björgunarklasi
Þann 28. september nk.munu hópstjórar þemahópanna kynna tillögur hópanna og taka þátt í umræðum. Tilgangur fundarins er að kalla eftir athugasemdum og endurgjöf og er þetta mikilvægur liður í að efla innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða. Jafnframt er þetta tækifæri fyrir sérfræðinga og hagsmunaaðila til að hafa áhrif á framtíð Íslands á norðurslóðum.
Nálgast má frekari upplýsingar um viðburðinn á Facebook síðu Norðurslóðanets Íslands https://www.facebook.com/nordurslodanetid
Skráning fer fram hér
Nánari upplýsingar veitir Embla Eir Oddsdóttir, forstöðumaður Norðurslóðanets Íslands, embla@arcticiceland.is, +354 864 5979.