Framkvæmdir við Lundarskóla á áætlun

Lundaskóli
Lundaskóli

Texti: Margrét Þóra Þórsdóttir

maggath61@simnet.is

 

„Þetta verkefni hefur gengið vel, það er allt á áætlun, bæði hvað varðar framkvæmdir og kostnað,“ segir Guðríður Erla Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs en umfangsmiklar framkvæmdir standa yfir við Lundarskóla.

Hún segir að um sé að ræða heildarendurnýjun á öllu húsnæði skólans, tveimur álmum, A og B. Báðar eru þær á tveimur hæðum og með tengigangi á milli, samtals yfir 3 þúsund fermetrar í allt. „Það er allt endurnýjað inn að steini, þannig að húsið verður sem nýtt þegar öllu er lokið“. Fyrri álman, A er svo gott sem búin, unnið er við lokafrágang þessa dagana. Húsgögn í allar kennslustofur eru væntanleg fyrri hluta ágústmánaðar. Þá verður lóð og körfuboltavöllur austan skólans einnig lagfærður fyrir skólabyrjun.  

Framkvæmdir við B álmu og inngarð eru hafnar og  áætlað að  framkvæmdum við  þann áfanga og nýjan inngarð milli álmanna ljúki næsta sumar, árið 2022 .   Nemendur í 7. - 10. bekk munu í vetur áfram sækja skóla í húsnæði gamla Brekkuskólans, Rósenborg líkt og var í fyrravetur.

1380 milljónir

Kostnaður við framkvæmdir við báða áfanga verksins er á áætlun. Heildarkostnaður við A álmu með búnaði er um 620 milljónir króna og B álmu og inngarð á milli álmanna er áætlaður kostnaður um 760 milljónir króna með búnaði. Samtals er verkefnið því upp á 1380 milljónir króna  „Þetta er hagkvæm og góð lausnin  og mun ódýrara en að byggja nýtt hús frá grunni og tími sem fer í hönnun og framkvæmdir er einnig skemmri,“ segir Guðríður.

Nýjast