27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Framkvæmdir að hefjast við byggingu 132 íbúða
mth@vikubladid.is
Framkvæmdir hefjast innan skamms við stórt verkefni á vegum Búfestis við Þursaholt í nýju Holtahverfi. Byrjað verður á að grafa grunna og segir Eiríkur H. Hauksson að stefnt sé að því að ljúka því verki fyrir veturinn. „Við stefnum svo að því að byrja að steypa um leið og veður leyfir næsta vor, vonandi strax í apríl.“
Við Þursaholt frá 2 til 12 verða á næstu árum byggðar alls 132 íbúðir í fjórum húsum. Tvö af húsunum eru reist í samvinnu við Félags eldri borgara á Akureyri og verðu samkomusalur á milli húsanna þar sem íbúar geta komið saman og gert sér glaðan dag. Eiríkur segir að ekki verði hægt að auglýsa íbúðirnar fyrr en verkið er lengra komið áleiðis og verð á þeim liggi ljóst fyrir.
Eftirspurn meiri en framboð
„Eftirspurnin verður örugglega meiri en framboðið, ég held að það sé ljóst strax,“ segir hann. Stórir árgangar séu að detta inn á ellilífeyrisaldur um þessar mundir og sá hópur fari stækkandi. Ekki sé nægt framboð af húsnæði fyrir þann hóp, en margir búi í óhentugu húsnæði, of stóru eða í lyftulausum húsum sem ekki henta þegar aldur færist yfir. „Það er margir í þessum hópi sem vilja komast í þægilegar íbúðir í fjölbýlishúsum og við þurfum að huga að því að auka framboð á þeim,“ segir Eiríkur.