Frábær þátttaka í fjallahlaupinu Súlur Vertical
Fjallahlaupið Súlur Vertical fer fram á Akureyri um helgina. Þátttaka er mjög góð og eru 497 hlauparar skráðir til leiks, þar á meðal margir sterkustu utanvegahlauparar landsins. Það má því búast við lífi og fjöri bæði við hlaupaleiðir og í miðbænum þar sem allir keppendur koma í mark um eða upp úr hádeginu á laugardag. Hátíðin hefst raunar á Krakkahlaupi sem fer fram í Kjarnaskógi kl. 16 í dag, föstudag, þar sem börn 12 ára og yngri spreyta sig í utanvegahlaupi og þar stefnir í metþátttöku. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Í Súlur Vertical er keppt í fjórum vegalengdum: 100, 43, 28 og 19 kílómetrum. Lengsta hlaupið er nýtt og gengur undir heitinu Gyðjan og næstlengsta hlaupið sem kallast Tröllið er einnig ný leið. Gyðjan hefst við Goðafoss í kvöld og hlaupið verður alla leið til Akureyrar í nótt um Belgsárfjall og Vaðlaheiði, upp á Súlur, inn Glerárdal og loks niður til Akureyrar. Keppendur í öðrum vegalengdum verða ræstir í Kjarnaskógi en enda allir, eins og áður sagði, í miðbænum.
Bæjarbúar og gestir eru hvattir til að sýna hlaupurunum tillitssemi og gleði í umferðinni þegar þeir fara að tínast inn í bæinn. Nokkuð verður um lokanir og takmarkanir á umferð á meðan á hlaupinu stendur og má lesa nánar um það hér.
Skorað er á bæjarbúa að láta sjá sig við hlaupaleiðir og hvetja keppendur áfram og ekki síður fagna þeim þegar í mark verður komið.
Hægt verður að fylgjast með tímum og ferðum allra keppenda á vefnum timataka.net.