20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Föstudagsfréttir úr Hrísey
Gróðurinn í Hrísey fagnaði þessa vikuna þó mannfólk og dýr gerðu það kannski ekki. Við erum jú mishrifin af bleytu.
Við vorum harkalega minnt á það að við búum á Íslandi í byrjun viku þar sem hiti fór undir 10 gráðurnar og himnarnir grétu. Nú þegar styttir upp og sólin fer aftur að skína má gera ráð fyrir röð við bensíndæluna og örlitlum hávaða í þorpinu því nú þurfa allir út að slá sprettuna sem rigningunni fylgdi.
Síðustu helgi var þjóðhátíðardagur Íslands. Fánar blöktu við húsin og ungmennafélagið Narfi bauð öllum krökkum í Hrísey upp á ís í Hríseyjarbúðinni. Sumum fannst orðið krakki frekar teygjanlegt og heyrst hefur að Díana í búðinni hafi þurft að hryggja margan fullorðinn með neitun á ís. Það er kannski ekki skrítið að orðið krakki sé teygjanlegt í Hrísey því hér verður margur barn aftur. Hoppar og leikur sér á ærslabelgnum (en hann spyr ekki um aldur) og þau djörfustu skella sér í aparóluna, sem endar þó oftast með grasgrænum og aumum bossa eftir að hafa runnið meira á jörðinni, en minna svifið í rólunni.
Það eru helst börnin sem láta veðrið minnst á sig fá. Heyra má í þeim í allskyns leikjum um allt þorp, í fótbolta bæði á stóra og litla vellinum og svo hefur Vinnuskólinn verið á ferðinni að fegra eyjuna.
Farþegaskipum fer fjölgandi og hópar af bláklæddum úlpum sveima um eyjuna og virða fyrir sér fuglalífið, mannlífið og náttúruna. Hafa þjónustuaðilar í Hrísey brugðist vel við og þessari viðbót í ferðamannastrauminn og Hríseyjarbúðin bauð upp á kvöldopnun fyrir hóp, safnið er opnað snemma að morgni eða seint að kvöldi eftir þörfum og Verbúðin hellir upp á og skiptir um kút eins og þarf. Hríseyingar eru gestrisnir og fara hóparnir glaðir frá okkur aftur. Vel gert eyjaskeggjar!
Föstudagskvöldið 16.júní var Svavar Knútur með auglýsta tónleika á Verbúðinni 66 sem enduðu í frábæru menningarkvöldi með tónlist, upplestri, leikrænum tilburðum og gleði. Var vel mætt fór fólk glatt heim út í bjarta sumarnóttina.
Íbúafundur í tengslum við rannsókn á ábyrgri eyjaferðaþjónustu var haldinn á miðvikudaginn og var vel mætt á hann. Áhugaverðar umræður áttu sér stað og greinilegt að fólkið hér er fullt eldmóðs fyrir Hrísey og ferðaþjónustunni. Það er alltaf gott þegar við erum dugleg og áhugasöm að taka þátt í vinnu við uppbyggingu hér í Hrísey. Það sýndi sig svo aftur á fimmtudagskvöldi þegar Þróunarfélag Hríseyjar hélt stofnfund sinn, hversu rík við erum af áhugasömum og hugmyndaríkum einstaklingum, félögum og fyrirtækjum sem hafa tengingu við eða störf í Hrísey. Vel var mætt á stofnfundinn og enn betur gekk skráning stofnfélaga. Stjórn var kosin og skipa hana Unnur Inga Kristinsdóttir, formaður, Gísli Rúnar Víðisson, Hrönn Traustadóttir, Ingimar Ragnarsson og Ingólfur Sigfússon. Það mun koma sér frétt um stofnfundinn og Þróunarfélagið hér á heimasíðuna fljótlega, ásamt fundargerð og samþykktum félagsins.
Það er ekki hægt annað en að fyllast bjartsýni, þakklæti og gleði þegar maður starfar fyrir Hrísey og öll þau sem henni fylgja. Fréttaritari stóð lengi í gærkvöldi og naut miðnætursólar í bland við rigningu og regnboga hér í þorpinu. Það skal engan undra að Hrísey eigi sér marga velunnara í öllum landshlutum og víðar um heiminn. Það eru töfrar yfir hríseyskri sumarnótt sem láta enga ósnortinn og samfélagið iðar af lífi sem við sköpum okkur sjálf. Það er gott að búa í Hrísey.
Föstudagsfréttir segja frá mannlífinu í Hrísey án þess að segja neinar lygasögur. Það sama verður ekki alltaf sagt um veðurfréttir föstudagsfrétta. Þær eru bara alls ekki alltaf sannar og réttar. Vill þó ritari koma því fram að lesnar eru fjórar mismunandi veðursíður og veðurfréttir bakaðar í kringum þær. Til upplýsingar eru síðurnar eftirfarandi: yr.no vedur.is blika.is og weather.com
Samkvæmt þessum fjórum síðum má gera ráð fyrir um 20 stiga hita á laugardaginn og heldur ólíklegt að rigni. Sunnudagur er heldur kaldari eða hiti í kringum 15 stigin og bleyta eftir hádegi eða seinnipartinn. Við mælum því með garðslætti, göngu og sólbaði á morgun en nota sunnudaginn til baksturs, heimsókna eða almennrar leti.
Frá stofnfundi Þróunarfélags Hríseyjar Mynd www.hrisey.is