Föstudagsfréttir úr Hrísey

Sara Björg, Hrafnhildur Dimmey og Elía Villimey sungu frumsaminn texta við lagið Gamli Nói á opnun s…
Sara Björg, Hrafnhildur Dimmey og Elía Villimey sungu frumsaminn texta við lagið Gamli Nói á opnun sýningar í Húsi Hákarla-Jörundar á barnamenningarhátíð Mynd www.hrisey.is

Það er ekki alvöru föstudagur ef ekki koma fréttir frá Hrísey, gjörið þið svo vel hér. Sumardagurinn fyrsti var í gær og hér í Hrísey var bæði sólskin og hiti. Margt fólk heimsótti eyjuna, bæði í dagsferðum og til dvalar yfir langa helgi. Það því líf og fjör á hátíðarsvæðinu og dásamlegt að heyra hlátrasköllin í bland við fuglasönginn. Fuglarnir eru að snúa heim eftir vetrardvöl á hlýrri slóðum og flögra nú um eyjuna í leit að maka með tilheyrandi söngvaflóði. 

Eftir að síðustu föstudagsfréttir voru birtar komu fréttir af því að Hrísey hefði fengið veglegan styrk úr Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða. Styrkurinn, sem hljóðar upp á 27 milljónir, verður notaður í stígagerð um rauðu gönguleiðina. Mun nýr og betri stígur auðvelda aðgengi að Hvatastöðum, en þústir af Hvatastöðum má sjá vel og greinilega þegar rauða leiðin er gengin. Hvatastaðir er talinn einn af fyrstu búsetustöðum landnámsmanna í Eyjafirði og hægt er að kynna sér sögu þeirra á skiltum sem standa við göngustíginn sem er þar nú sem og hægt að lesa fornleifarannsókn Orra Vésteinssonar af svæðinu frá árinu 2018 hérna. Verður stígurinn mikil bót fyrir bæði lýðheilsu og afþreyingu hér í Hrísey.

Þegar fuglarnir þagna í örstutta stund má heyra í töluverðum framkvæmdum hér í eyjunni. Við Búðartanga er unnið hörðum höndum við að klára ný-reistan sumarbústað og í Kaupfélagshúsinu er verið að útbúa litla íbúð. Hríseyingar nýttu góða veðrið í vikunni og byrjuðu garðvinnu og eru trampólínin farin að birtast hér og þar. Það er því sannarlega margt sem segir okkur að sumarið sé hér. Veðrið þennan föstudag vildi þó ekki vera með okkur í þeirri trú því eyjaskeggjar og gestir vöknuðu upp við snjókomu og föl hefur sest hér og þar um eyjuna. 

Slökkviliðið er enn að æfa sig og læra á nýja bílinn og komu félagar þeirra frá Akureyri yfir að líta yfir tækin með þeim nú í vikunni. Það minnti á gott froðupartý, útlitið fyrir framan slökkvistöðina um tíma.

Barnamenningarhátíð er haldin hátíðleg hér í Hrísey eins og annars staðar í sveitarfélaginu. Linda María Ásgeirsdóttir ásamt Þórunni og Theodóru úr grunn og leikskólanum, unnu með yngri krökkunum í Hríseyjarskóla og leikskóladeild að sýningu um sögu Hríseyjar. Opnaði sýningin í húsi Hákarla-Jörundar sumardaginn fyrsta. Sýningin verður opin í dag, föstudag, milli klukkan 14:00 og 16:00. Er sýningin bæði fræðandi og stórskemmtileg, við hvetjum ykkur til þess að láta hana ekki framhjá ykkur fara!

Það voru þó ekki bara yngri krakkarnir í Hrísey sem helguðu sig listinni þessa vikuna. Unglingadeildin í Hríseyjarskóla tók þátt í hæfileikakeppninni Fiðringi á þriðjudaginn. Sýndu krakkarnir frumsaminn leikþátt sem heitir Tvær hliðar og fjallar um fátækt og misskiptingu á Íslandi. Linda María hélt utan um hópinn og vann með þeim við gerð atriðisins. Það var góður hópur Hríseyinga sem fylgdi þeim í Ólafsfjörð og hvatti krakkana áfram. Hríseyjarskóli var minnsti skólinn til þess að taka þátt og var því öll unglingadeildin í atriðinu! Þau stóðu sig ótrúlega vel og getum við verið mjög stolt af þeim.

Föstudagspizzur Hríseyjarbúðarinnar verða á sínum stað í kvöld fyrir öll þau sem vilja spara sér eldamennskuna. Verbúðin er opin á laugardagskvöldi svo hægt er að komast upp með að nota eldhúsið lítið sem ekkert heima hjá sér um helgina! 

Vorveður verður um helgina þar sem hiti verður á 0-6 gráður og sólin ætlar að sýna sig aðeins. Við látum smá föstudagssnjókomu ekki stoppa okkur í útivist og gleði. Hægt er að fara að prófa frisbígolfvöllinn, rölta gönguleiðirnar, fara í sund eða kíkja í kaffi til nágrannans.

Nýjast