Föstudagsfréttir frá Hrísey

Traktorarnir og rjúpan eru ein helstu einkenni Hríseyjar      Mynd  www.hrisey.is
Traktorarnir og rjúpan eru ein helstu einkenni Hríseyjar Mynd www.hrisey.is

Þá er tuttugustu viku ársins 2023 að ljúka hér í Hrísey.

Veður hefur verið með besta móti hjá okkur og hefur sést til eyjaskeggja á ferð með slátturvélar í görðum. Gróður virðist almennt koma vel undan vetri og eyjan að verða alveg fagur græn. Hreiður má finna á ólíklegustu stöðum, bæði hér í byggð og uppi á ey, svo við minnum enn á að fara varlega á ferðum okkar. Hrísey er þekkt fyrir mikið og spakt fuglalíf. 

Við fengum góða heimsókn í vikunni þegar aðilar á vegum verkefnisins Römpum upp Ísland komu og römpuðu upp Íþróttamiðstöðina. Þetta er frábært framtak og við þökkum kærlega fyrir komuna og rampinn! Hægt er að sjá rampinn á facebook-síðu verkefnisins hér.

Hollandsför Hríseyjarskóla náði í staðarmiðla þar sem Vikublaðið, Akureyri.net og Kaffið.is fjölluðu um konunglegu ferðina þeirra. Það er alltaf gaman að fá svona skemmtilega umfjöllun um þá góðu hluti sem gerast og unnið er að hér í Hrísey.

Með hækkandi sól og hita fjölgar gestum í eyjunni, bæði í dagsferðum sem og lengri dvöl. Það er því að færast enn meira líf í þegar líflega eyju. Við bendum á að ruslatunnur eru um allt þorp og við berum öll ábyrgð á að halda eyjunni snyrtilegri. Á morgun, laugardag, fer fram árlegi Hreinsunardagur Hríseyjar og hittumst við fyrir framan Hríseyjarbúðina klukkan 10:30. Þar skiptum við á milli okkar svæðum og pokum áður en haldið er í gönguferð um alla eyju að tína rusl og hreinsa. Eftir hreinsunina verður boðið upp á grillaða hamborgara og pylsur á Hátíðarsvæðinu. Við hvetjum öll sem í eyjunni verða á morgun til þess að taka þátt. Bæði fyrir náttúruna og skemmtunina, því þar sem Hríseyingar koma saman þar er gaman.

Útivistartími barna lengdist um síðustu mánaðarmót og eru krakkarnir í Hrísey dugleg að nýta sér það. Ærslabelgurinn og Hátíðarsvæðið er í notkun öll kvöld og það lyftir gleðinni á hærra plan að heyra hlátrasköllin og leikgleðina óma yfir allt þorpið. Frisbígolfvöllurinn hefur verið nýttur vel og við hvetjum fólk til þess að skella sér hring þar eftir hreinsun um helgina. 

Hvalir hafa verið á ferli framan við Hrísey síðustu daga og heppið fólk hefur getað setið í heitapottinum í sundlauginni og horft á þá dóla sér fyrir utan. Það gæti því borgað sig að setjast niður einhvern þeirra bekkja sem eru um eyjuna, slaka á og horfa út á haf, því þú gætir séð hvalina bregða fyrir.

Verbúðin 66 er opin á laugardaginn frá 15:00 til 22:00 og gott að næla sér í bita þar eftir frisbígolf og/eða sund. Einnig verður kaffihúsaopnun á sunnudegi, enda sunndagur og hjónabandssæla Verbúðarinnar frábær blanda!

Hríseyjarpizzur eru opnar í kvöld og hefur heyrst að pizzugerð í heimahúsum hafi snarminnkað eftir að hægt var að panta ljúffengar pizzur í Hríseyjarbúðinni á föstudögum.

Veðrið um helgina verður ágætt. Hiti í kringum 10 gráður og möguleiki á smá úrkomu. Það er nú svo ágætt að bleytan skaðar ekki okkur mannfólkið en er gróðrinum til bóta. Við klæðum okkur því bara eftir veðri og munum eftir því að taka inn þvottinn.

Frá hátíðarsvæðinu í Hrísey

Nýjast