Föstudagsfréttir frá Hrísey
Það hafa verði fallegir dagarnir í Hrísey.
Veður hefur verið að mestu gott og margir sjást í görðum sínum í vor og snemm-sumarverkum. Fuglar eru farnir að verpa í görðum og um alla ey og því ágætt að minna fólk á að fara varlega ef gengið er utan vega. Einnig biðjum við fólk að passa ferfættu vini sína, hafa í taumi og vernda þannig fuglalífið í Hrísey.
Ferðafólki fer fjölgandi og eru dagsferðir til Hríseyjar alltaf vinsælar. Við sjáum skemmtiferðaskipin sigla framhjá og smá saman fjölgar bátum við smábátabryggjuna.
Ærslabelgurinn er upp risinn eftir sumardvala og hefur það sannarlega glatt börnin. Núna koma þau enn þreyttari heim í lok dags eftir að hafa hoppað hæðir sínar á belgnum. Það má nú alveg sjá fullorðna fólkið lauma sér líka á belginn svo óhætt er að segja að það sé almenn gleði hjá öllum kynslóðum.
Árshátíð Hríseyjarskóla var haldin með pompi og prakt síðasta laugardag. Leikskólabörnin sýndu myndband við lag Ómars Ragnarssonar, Minkurinn í hænsnakofanum. Sýndu krakkarnir flotta takta í gervi hænsna, hana, minks og húsdýra. Starfsfólk leikskólans var ekki síðra í sínum hlutverkum! Eftir myndbandið sungu krakkarnir svo ljómandi vel Dansi dansi dúkkan mín og hlutu mikið lófaklapp fyrir. Kvartettinn Synir söng Fyllibyttublús eftir Ljótu Hálfvitana, 8-10 bekkur sýndu Fiðringsatriðið sitt og allur grunnskólinn tók svo þátt í skemmtilegri uppsetningu á Línu Langsokk. Eftir frábærar sýningar, hlátur og gleði, var svo kökuhlaðborð og kaffi á eftir. Hríseyingar og gestir fjölmenntu og sækja þurfti fleiri stóla fjöldin var svo mikill! Skólablaðið Hrís rokseldist og eru krakkarnir og öll þau er að árshátíðinni komu ánægð með undirtektirnar. Takk Hríseyjarskóli fyrir skemmtilega og flotta árshátíð!
Það hefur verið óvenju rólegt á götum Hríseyjar í vikunni. Ástæðan er sú að 9 af 17 nemendum Hríseyjarskóla fór í heimsókn til vina sinna á eyjunni Vlieland við Holland. Vildi það svo skemmtilega til að Willem-Alexander, kóngur Hollands, fór í heimsókn til Vlieland á sama tíma og hittu krakkarnir hann. Skrifuðu krakkarnir skemmtilega frétt á heimasíðu skólans og sjá má nokkrar myndir af ferðinni. Endilega lesið allt um ástæðu ferðarinnar og hvað þau gerðu hér.
Á þriðjudags og fimmtudagskvöldi voru fáir á ferli enda Eurovision! Ísland verður ekki með á laugardaginn en það breytir því þó ekki að Hríseyingar halda Euro gleði á sínum heimilum og finna sér annað land og lag að halda með. Hríseyjarbúðin er með gott úrval af snakki, gotteríi og dýfu fyrir kvöldið.
Það viðrar ekki sérstaklega vel til garðvinnu um helgina þar sem það gæti orðið smá bleyta. Hitinn heldur sig réttu megin við núllið en afar ólíklegt að hann nái tveggja stafa tölu. Við geymum útsæðið bara aðeins lengur ef það er ekki þegar komið niður!
Föstudagspizza í Hríseyjarbúðinni klikkar ekki og svo er opið á Verbúðinni 66 á laugardagskvöldi. Um að gera að panta sér og sækja fyrir Eurovision!