Föstudagsfréttir frá Hrísey
Þær eru í seinna fallinu fréttir frá Hrísey þessa vikuna, en það skrifast á vefara Vikublaðsins.
Enn ein vikan liðin hér í Hrísey.
Vetur og vor tókust á þar sem sólin skein og fuglar sungu á meðan snjóaði smá og kalt var í lofti.
Hrísey er menningar eyja og erum við svo lánsöm að hafa bæði okkar eigin listamenn og konur í húsum hér í eyjunni, sem og að hafa Gamla skóla. Listafólkið sem dvalið hefur í Gamla skóla undanfarið efndi til sýningu á verkum sínum sem þau hafa verið að vinna. Boðið var upp á málverkasýningu, frumsamda tónlist og upplestur. Heimafólk og gestir eyjarinnar fjölmennt upp í Gamla skóla og nutu þess sem listafólkið hafði upp á að bjóða. Það bæði kryddar og göfgar mannlífið í Hrísey að fá nýtt fólk með nýja sýn á landið okkar, eyjuna okkar og okkur sjálf. Hægt er að fygljast með því sem er að gerast í Gamla skóla á Facebook í þessum hóp. Þar setur sumt listafólkið inn verkin sín, vinnuna og myndir úr Hrísey.
Hverfisráð Hríseyjar hélt aðalfund sinn þriðjudaginn 25.apríl. Ingólfur formarður ráðisins fór yfir starfsárið 2022-2023 og talin voru upp mörg þau góðu verkefni sem ráðið vann að. Uppbygging á Hátíðarsvæðinu hefur gengið vel og er búið að fjölga leiktækjum ásamt því að vinna í grillhúsinu. Umhverfisverkefni voru þó nokkur og ráðgjöf og samtal við Akureyrarbæ um ýmis málefni. Kosið var í hverfisráðið og sitja þeir Ingólfur Sigfússon, formaður, og Narfi Freyr Narfason áfram en Júlía Mist Almarsdóttir kemur ný inn. Við þökkum fráfarandi meðlim ráðsins Friðriki Úlfari Ingimarssyni, kærlega fyrir sín störf og óskum honum velfarnaðar í nýjum ævintýrum á meginlandinu. Við hvetjum nýtt ráð til áframhaldandi góðra verka og óskum þeim alls hins besta á komandi starfsári.
Með hækkandi sól og hlýnandi veðri fjölgar bæði gangandi og hjólandi vegfarendum. Við biðjum því alla á götunum, akandi, gangandi og hjólandi, um að fara varlega, taka tillit og líta til beggja hliða á gatnamótum.
Við höfum áður minnst á vorboða í Hrísey eins og fljúgandi farfugla, mennska farfugla og kúluísinn í Hríseyjarbúðinni. Annar vorboði eru hlátrasköll og leikur krakkana í Hrísey þar sem þau eru úti í leikjum um alla eyju. Tímarnir breytast og mennirnir með, en fjörugir leikir barna í Hrísey breytast lítið. Enn er farið í yfir hjá rauða skúrnum, löggu og bófa lifir góðu lífi og fótboltar finnast í ýmsum görðum og runnum. Það er ekki annað hægt en fyllast bjartsýni og gleði yfir framtíðinni þegar maður fylgist með ungu eyjaskeggjunum.
Auglýst var á samfélagsmiðlum að Vinnuskólinn væri með opið fyrir umsóknir. Hvetjum við unglingana í Hrísey til þess að sækja um hér. Ef einhver ætlaði að sækja um flokkstjóra-stöðu en gleymdi sér aðeins, þá er hægt að hafa samband á netföngin vinnuskoli@akureyri.is eða orri@akureyri.is
Það er þriggja daga helgi framundan og því má búast við því að það fjölgi fólki í Hrísey. Við minnum á íþróttir fyrir fullorðna á sunnudögum í boði UMF Narfa og hvetjum ykkur til þess að vera dugleg að fylgjast með viðburðardagatalinu hér á síðunni. Opnunartímar hjá Verbúðinni 66 eru auglýstir bæði á Facebook og Instagram svo endilega skellið í "follow" ef þið eruð ekki þegar búin að því. Hríseyjarbúðin auglýsir tilboð, nýjar vörur, opnunartíma og fleira á sínum miðlum, Facebook og Instagram. Við mælum sömuleiðis með því að þið skellið í "follow" þar ef þið eruð ekki búin að því. Íþróttamiðstöðin er líka á facebook og þar er gott að fylgjast með opnunartíma. Endilega eltið þeirra síðu líka.
Hiti verður rokkandi í kringum frostmark, sólin sýnir sig en skýin þvælast eitthvað aðeins fyrir. Við munum því ekki alveg leggja vetrarfötunum um þessa helgi, en það styttist í það! Gönguleiðirnar er dásamlegt að fara í þessu veðri, starfsfólk Íþróttamiðstöðvarinnar tekur vel á móti ykkur og það er hægt að sitja inni með kúluísinn í búðinni. Fyrir þau sem ekki nenna að elda í kvöld þá er opnar fyrir pizzupantanir klukkan 16:00 í Hríseyjarbúðinni.