Flest vilja að sameinað sveitarfélag heiti Langanesbyggð

Þórshöfn. Mynd: Boðinn/Facebook
Þórshöfn. Mynd: Boðinn/Facebook

Á dögunum lauk rafrænni skoðanakönnun í samvinnu við Betra Ísland á meðal íbúa 16 ára og eldri í sameinuðu sveitarfélagi Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps um nýtt heiti sveitarfélagsins og einnig um byggðamerki. Íbúar gátu valið á milli þriggja heita og tveggja útfærslna af byggðamerki. Greint er frá þessu á vef Langanesbyggðar.

Til þess að taka þátt þurftu íbúar að skrá sig inn í gegnum rafræn skilríki eða með íslykli. Skoðanakönnunin hófst miðvikudaginn 7. júlí kl 14:00 og henni lauk 18. júlí kl 16:00.

Niðurstöður úr þessari skoðanakönnun voru mjög afgerandi bæði hvað varðar heiti og byggðamerki. Heitið Langanesbyggð fékk 80% atkvæða þeirra sem tóku þátt. Norðausturbyggð fékk 16% atkvæða og Langanesþing fékk 4% atkvæða.

Þá var kosið á milli tveggja byggðamerkja og fékk önnur útfærslan áberandi fleiri atkvæði eða 80% en hin fékk 20% atkvæða. Sú sem fékk fleiri atkvæði fylgir með þessari frétt.

Þátttaka á meðal íbúa í könnuninni var um 20% miðað við alla íbúa 16 ára og eldri með lögheimili í sameinuðu sveitarfélagi.

Sveitarstjórn mun á næsta fundi sínum taka þessi mál til umfjöllunar og mun hafa þessar niðurstöður til hliðsjónar við ákvörðun um nýtt heiti og nýtt byggðamerki fyrir sameinað sveitarfélag.

Nýjast