Fjórtán ára Völsungur í úrvalsliði Bobby Charlton

Stefán Óli Hallgrímsson. (641.is)
Stefán Óli Hallgrímsson. (641.is)

Fjórtán ára markmaður úr Völsungi, Stefán Óli Hallgrímsson var valinn í úrvalslið knattspyrnuskóla Bobby Charlton í Manchester á Englandi í síðustu viku, en þar æfði hann knattspyrnu í um viku tíma ásamt tæplega 100 öðrum jafnöldrum sínum, strákum og stelpum, víðsvegar að úr heiminum. Þetta kemur fram á vefmiðlinum 641.is

Stefán Óli er frá Grímshúsum í Aðaldal en hefur æft með yngri flokkkum Völsungs í nokkur ár. Hann var verðlaunaður sérstaklega frá skólanum með orðunum: „Most likely to be a professional goalkeeper“, eða líklegastur til að verða atvinnumaður í knattspyrnu sem markvörður. Um 40 aðrir jafnaldrar Stefáns frá Íslandi æfðu líka við knattspyrnuskólann á sama tíma.

En það voru ekki bara þrotlausar knattspyrnuæfingar við skólann því ýmislegt var gert til skemmtunar. Farið var í skoðunarferðir á leikvelli í nágrenninu og í skemmtiferðir í Manchesterborg.

Búast má við að hann eigi eftir að láta til sín taka á milli stanganna í framtíðinni.

 

Nýjast