Fjör í Vísindaskóla unga fólksins

Vísinda Villi vakti lukku. Myndir/aðsendar
Vísinda Villi vakti lukku. Myndir/aðsendar

Vísindaskóli unga fólksins er orðinn fastur liður í starfsemi Háskólans á Akureyri. Þetta er í sjötta sinn sem hann er nú starfræktur. Hvert ár er boðið upp á ný þemu en að þessu sinni voru yfirskriftirnar þessar: Að glíma við hreyfingarleysi, Fjármálavit og réttur barna, Mál og myndir, Að fljúga eins og fuglinn og Í skóginum stóð kofi einn – lesið og tálgað í tré.

Hugmyndin að Vísindaskólanum fæddist fyrir, segir Sigrún Stefánsdóttir, sem hefur haldið utan um verkefnið frá upphafi: „Við gerðum ráð fyrir kannski 30-40 börnum en þess í stað sóttu 80 börn um skólavist og sá fjöldi hefur haldist ár hvert. Börnin eru á aldrinum 11-13 ára og geta þau komið þrjú ári í röð enda tryggt að þeirra bíði ný og áhugaverð verkefni“.

Börnin koma alls staðar að af landinu, en meirihlutinn kemur þó frá Akureyri og nágrenni. Til að byrja með var kynjahlutfallið jafnt en í ár var mikill meirihluti drengir. Sigrún segist vera ánægð með þá þróun, þar sem oft sé erfitt að vekja áhuga pilta á öðru en fótbolta.

Verkefnið er rekið að stórum hluta með styrkjum frá fyrirtækjum og stofnunum en líka eru margir sem gera framkvæmdina mögulega með annars konar framlögum. Börnin geta notað frístundastyrkinn til þess að greiða þátttökugjaldið sem hefur verið reynt að halda í lágmarki.

Vísindaskólinn

Sigrún segir að það sé mikil áhersla lögð á metnaðarfulla dagskrá og að einvala lið hafi komið að kennslunni alveg frá byrjun. Meðal þeirra sem komu að kennslunni í ár var starfsfólk frá Umboðsmanni barna, Flugsafninu, Samtökum fjármálafyrirtækja, SAk, Skógræktarfélagi Eyjafjarðar, að ógleymdum Villa vísindamanni sem lék sér að tungumálinu með þátttakendum.

Skólinn stendur yfir í viku – alltaf í júní og byrjar kl. 9 á hverjum degi og stendur fram til kl. 15. Skólanum lauk með formlegri útskriftarhátíð sem var byggð upp á sama hátt og þegar verið er að brautskrá háskólanemana. Rektor flutti ávarp, ungt tónlistarfólk lék listir sínar og nemendur fluttu ávörp og könnuðu þekkingu rektors á því efni sem þau höfðu unnið með í vikunni. Villi lokaði svo athöfninni með því að taka af sér kennarahattinn og brá sér í búning vísindamannsins og sýndi kunnáttu sína. Undirbúningur er þegar hafinn fyrir Vísindaskóla unga fólksins árið 2023.

Nýjast