30. október - 6. nóember - Tbl 44
Fjölgun nemenda í iðjuþjálfun kallar á fleiri pláss á vettvangi
Iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri og Iðjuþjálfafélag Íslands hafa tekið höndum saman í að hvetja starfandi iðjuþjálfa til að taka bæði á móti nemendum í stuttar vettangsheimsóknir og bjóða fram vettvangsnámspláss í iðjuþjálfun – starfsrétttindanámi.
„Þörfin kemur til vegna mikillar fjölgunar nemenda við Iðjuþjálfunarfræðideildina, sem er vissulega mjög jákvæð. Við höfum alltaf átt gott samstarf við starfandi iðjuþjálfa í landinu og erum því vongóð um að fleiri séu tilbúnir til að taka virkan þátt í vettvangsnámi iðjuþjálfanema,“ segir Hulda Þórey Gísladóttir, verkefnastjóri vettvangsnáms í iðjuþjálfun – starfsréttindanámi.
Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á nám í iðjuþjálfunarfræði. Um er að ræða þriggja ára BS-nám en til að öðlast starfsréttindi þarf að bæta við eins árs starfsréttindanámi á meistarastigi.
Á vefsíðu Iðjuþjálfafélags Íslands stendur: „Iðjuþjálfun er vaxandi faggrein um allan heim og viðfangsefni iðjuþjálfa eru afar fjölbreytileg. Leiðarljósið er að standa vörð um og efla iðju, þátttöku, heilsu og velferð einstaklinga, hópa og samfélaga. Iðjuþjálfar starfa með fólki á öllum aldri sem af einhverjum ástæðum glímir við iðjuvanda sem hamlar þeim í hversdeginum og hindrar þátttöku. Iðjuþjálfar eru ein af lykilstéttunum innan forvarna, vinnuverndar og endurhæfingar. Þjónusta þeirra og vinnuaðferðir byggja á gagnreyndri þekkingu og viðurkenndu verklagi.“
Iðjuþjálfun er löggilt heilbrigðisstétt hér á landi og til þess að mega starfa sem iðjuþjálfi þarf leyfi frá Embætti landlæknis. „Námið við HA fylgir nýjustu þróun á sviðinu og að námi loknu geta nemendur valið um fjölbreytt störf innan heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntastofnana og félagasamtaka. Í raun má segja að sífellt fleiri aðilar séu að koma auga á þá faglegu þjónustu sem iðjuþjálfar geta veitt og að starfið sé því orðið sýnilegra almenningi. Iðjuþjálfar eru samheldinn hópur og við hlökkum til að fjölga í honum enn frekar,“ segir Hulda Þórey að lokum.
Nánari upplýsingar veita: Hulda Þórey Gísladóttir, verkefnastjóri vettvangsnáms í iðjuþjálfun – starfsréttindanám, huldathorey@ unak.is, og Hafdís Hrönn Pétursdóttir, verkefnastjóri vettvangsnáms í iðuþjálfunarfræði – BS