Fiðringur, hæfileikakeppni grunnskólanema -Undankeppni framundan
Það var stórkostlega gaman á fyrsta Fiðringnum sem var haldinn í Hofi í fyrra. Ég býst fastlega við að stemmingin verði engu síðri í ár,“ segir María Pálsdóttir sem hrinti hugmyndinni um Fiðring úr vör í fyrravor, en um er að ræða hæfileikakeppni fyrir nemendur í grunnskólum að fyrirmynd Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi.
Í fyrra tóku nemendur frá átta grunnskólum þátt en nú hefur bæst i hópinn, þeir verða frá tólf skólum í ár á svæðinu frá Fjallabyggð til Húsavíkur.
Vegna mikillar þátttöku verða tvö undankvöld þar sem sex skólar etja kappi hvort kvöld en alls komast átta skólar áfram á úrslitakvöldið sem haldið verður í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í næstu viku, þriðjudagskvöldið 25. Apríl
Fyrra undan úrslitakvöldið fór fram í Tjarnarborg í Ólafsfirði á þriðjudagskvöld og hið síðara í Laugarborg í gærkvöld. Úrslitakvöldið fer svo fram í Hofi á Akureyri á þriðjudagsvöld, enMenningarfélag Akureyrar stendur á bak við Fiðring með dyggum stuðning SSNE, Barnamenningarsjóðs, Samfélagsjóðs Landsbankans, SBA og þátttökuskólanna allra. Kynnar á úrslitakvöldinu eru Vandræðaskáldin okkar Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason og Villi kynnir líka á undankeppnunum. Fiðringslagið verður flutt í dómarahléi á úrslitakvöldinu en í ár kusu nemendur Röddina í klettunum með Gugusar sem mætir á staðinn og skemmtir áhorfendum. Hægt er að næla sér í miða á mak.is.
Nemendur á unglingastigi þátttökuskólanna hafa samið sitt eigið atriði og æft af kappi alla vorönnina undir handleiðslu leiðbeinanda og mikil áhersla er lögð á sjálfstæð og lýðræðisleg vinnubrögð, hugmyndin og útfærslan kemur frá nemendum sjálfum. Einnig sér hópurinn alfarið um listræna útfærslu hvað varðar búninga, leikmynd, sviðhreyfingar, ljós og hljóð þannig að þátttaka í Fiðringi er heljarinnar skóli í sjálfu sér. Hápunkturinn er svo að hitta hin liðin og sýna afraksturinn á leiksviði með allri leikhústækninni og töfrunum.
Nánar í prentútgáfu Vikublaðsins á fimmtudag.