Fara þarf í endurbætur á kirkjutröppunum

Snjóbræðslukerfið í tröppunum er nánast ónýtt. Mynd/Akureyri.is
Snjóbræðslukerfið í tröppunum er nánast ónýtt. Mynd/Akureyri.is

Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar hefur óskað eftir því að áfram verði unnin áætlun um endurbætur á kirkjutröppunum við Akureyrarkirkju ásamt kostnaðaráætlun. Frá því var greint á dögunum að vegna bilunar var slökkt á snjóbræðslukerfinu í kirkjutröppunum tímabundið. Kirkjutröppurnar eru upphitaðar með rafmagni, en um nokkurt skeið hefur verið ólag á hitastrengjum og undanfarið hafa tíðar útleysingar skapað vandamál.

Andri Teitsson, formaður umhverfis-og mannvirkjaráðs, segir ljóst að snjóbræðslukerfið í tröppunum sé nánast ónýtt, það var byggt á rafhitun á sínum tíma, en núna myndi verða lagt vatnskerfi.

„Þannig að þetta þarf að vinna alveg frá grunni. Svo þarf að endurnýja tröppurnar sjálfar og lýsingu og handrið sem er norðan við tröppurnar til að verja fólk frá því að falla niður á bílastæðið, svo nokkuð sé nefnt. Það er ljóst að þetta er býsna umfangsmikið verkefni. En tröppurnar eru eitt mikilvægasta kennileiti Akureyrar þannig að það er vilji til að gera þetta svo að sómi sé að,“ segir Andri.

Næsta skref sé að skilgreina hvað þurfi að gera og setja svo upp tímaáætlun og kostnaðaráætlun.

Nýjast