20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Fallið frá viðbyggingu við íþróttahöllina fyrir Frístund
Bygging nýs húsnæðis undir Frístund og félagsmiðstöð á Húsavík er nú í uppnámi en áform um að byggja nýtt húsnæði við Íþróttahöllina hafa verið slegin út af borðinu eftir athugasemdir frá aðstandendum arkítekts.
Útfærsla flóknari
Sveitarstjórn Norðurþings fjallaði um málið á dögunum og lagði fram tillögu sem var samþykkt samhljóða. Þar kemur fram að viðbygging við íþróttahöll séu flóknari í útfærslu en gert hafi verið ráð fyrir. Því þurfi að endurmeta stöðuna sem upp er komin og skoða aðra kosti til að byggja undir starfsemina.
Meirihluti sveitarstjórnar leggur til að skipaður verði spretthópur til að rýna gögn málsins og mögulegar staðsetningar og leggja til nýja staðsetningu fyrir uppbyggingu frístundahúsnæðis og félagsmiðstöð á Húsavík.
Fjölskylduráði verði falið að skipa í hópinn og móta erindisbréf um starf hans og gert verði ráð fyrir að hópurinn hafi lokið vinnu sinni 1. september næstkomandi.
Fjölskylduráð hefur nú skipað eftirfarandi í spretthópinn: Þórgunnur Vigfúsdóttir, Jón Höskuldsson, Sólveig Ása Arnarsdóttir, Helena Eydís Ingólfsdóttir, Soffía Gísladóttir, Aldey Unnar Traustadóttir og Rebekka Ásgeirsdóttir.
Í millitíðinni verði reistar færanlegar einingar á lóð Borgarhólsskóla með kennslustofum sem nýst geta skólanum og starfsemi frístundar færist tímabundið á neðstu hæð skólans. Gert er ráð fyrir að einingarnar verði tilbúnar til notkunar í lok ágúst.
Galopið fyrir aðra möguleika
Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri sagði frá vandkvæðum þess að byggja við íþróttahöll.
„Þegar var farið að setja sig í samband við arkítekta íþróttahallarinna þá óskuðu afkomendur hans eftir því að fá að koma að málinu. Niðurstaðan er sú að þeim lýst ekki á að byggt verði við íþróttahöllina,“ sagði Katrín og bætti við að þannig væri málið galopið fyrir aðra möguleika.
Hún sagði áríðandi að spretthópurinn færi strax af stað. Að það verði farið í erindisbréf og skipan þess strax á næsta fundi. „Það er gott að taka málið upp frá byrjun og ná um það meiri sátt.“
Hafnar því að málið sé á byrjunarreit
Helena Eydís Ingólfsdóttir D-lista tók undir með Katrínu um mikilvægi þess að spretthópur fari strax af stað og skoði þau gögn sem til eru.
„Ég held að við ættum að leggja alla áherslu á að nýta þá vinnu sem þegar hefur farið fram og hún er töluverð. Við vorum með tvo hópa sem unnu að málinu á síðasta kjörtímabili. Við verðum að horfa í þær staðsetningar sem áður hafa verið uppi og þær tillögur sem áður hafa komið fram sem er þá Tún, viðbygging við Borgarhólsskóla og nokkrar staðsetningar sem eru á þessu deiliskipulagssvæði,“ útskýrði Helena og bætti við að mikilvægt sé að greiningu á þessum kostum verði lokið í haust svo hægt sé að fara í hönnunarvinnu og útboð í vetur. „Ég vona að nú geti skapast meiri sátt um málið en verið hefur hingað til.“
Harma tíma sem farið hefur til spillis
Benóný Valur Jakobsson S-lista fagnaði tillögunni en sagðist harma þann tíma sem farið hefur til spillis og benti á að minnihlutinn hafi lagt fram samskonar tillögu í október sem var hafnað. „En hún er komin og stöndum núna saman. Skipum breiðan hóp þar sem allar skoðanir koma fram og gerum þetta með sóma,“ sagði Benóný.
Hafnar því að tími hafi farið til spillis
Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar sagðist harma að það hafi tekið þetta langan tíma að fá svar frá arkítekt. „Nú þarf að bakka frá þeirri hugmynd sem að var niðurstaða um samþykkja að framkvæma. Við erum kannski búin að taka tvö skref og erum þá að fara til baka núna og þurfum að rýna til gagns. Ég ætla hins vegar að hafna því að það hafi tími farið til spillis. Ég ætla ekki að fara í langar söguskýringar um það sem var samþykkt 2018. Nú getum við sammælst um þessa tillögu eins og hún lítur út. Fjölskylduráð tekur þennan bolta, skipar þennan hóp sem hefur skamman tíma,“ sagði hann.