Engin lyfjaskápur í Grímsey til að nýta ef upp kemur alvarlegt slys

Grímsey. Mynd úr safni/Auðunn Níelsson
Grímsey. Mynd úr safni/Auðunn Níelsson

 

„Það fór ýmislegt í gang eftir að hér varð bílslys um daginn og ég vona að málin horfi til betri vegar,“ segir Halla Ingólfsdóttir formaður Hverfisnefndar Grímseyjar, en mikil umræða var á fundi nefndarinnar um viðbrögð við slysum og þjálfun eyjarskeggja. Upp hafa um tíðina komið alvarleg slys, mjaðmagrindabrot og hálsbrot og staðan þannig að lítið sem ekkert var hægt að verkjastilla fólk á meðan beðið var eftir aðstoð vegna lyfjaskorts.

„Við hér í Grímsey verðum að vera betur undirbúin en fólk víðast hvar annars staðar ef hér verður slys, því oft getur háttað þannig til að erfitt sé að koma aðstoð út í eyjuna,“ segir hún. Árið 2014 bauð Sjúkraflutningaskólinn upp á námseið um fyrstu hjálp í Grímsey og upprifjunarnámskeið tveimur árum síðar. Frá þeim tíma hefur lítið gerst og margir sem sóttu þessi námskeið hafa flutt úr eyjunni eða dvelja í landi yfir vetrartímann.

Mikill áhugi er á að fá svona námskeið aftur og segir Halla að slökkvilið hafi sett sig í samband við íbúa eftir að bílslysið varð. „Það fór greinilega eitthvað ferli í gang við þann atburð og vonandi kemur eitthvað gott út úr því,“ segir Halla.

Sótt um að fá lyfjaskáp

Einnig var á fundinum rætt um hvað til væri í eyjunni af búnaði og lyfjum ef upp koma slys, enda getur orðið ófært til Grímseyjar dögum saman. „Það er ekkert til sterkara við verkjum hér en parkódín á einstaka heimili og einhver deyfiefni í bátum ef til kemur að þurfi að sauma,“ segir Halla.  Lyfjaskápur er heima hjá læknaritara en hann geymir eingöngu varabirgðir af sýklalyfjum. Sterk verkjalyf má ekki hafa hvar sem er, en fram er komin hugmynd um að setja upp læstan skáp með sterkum verkjalyfjum og þegar hringt yrði í gengum 112 eftir aðstoð gæti læknir sem rætt væri við gefið upp kóða sem opnaði skápinn. Búið er að sækja um að fá slíkan lyfjaskáp til Grímseyjar. „Vonandi kemur hann sem fyrst, því það er mikið öryggisatriði fyrir okkur.“

 

Nýjast