Endurvinnslan 100 þúsund dósum skilað inn á einum degi

Indriði Helgason verkstjóri hjá Endurvinnslunni á Akureyri við þokkalega dósastæðu sem búið er að pr…
Indriði Helgason verkstjóri hjá Endurvinnslunni á Akureyri við þokkalega dósastæðu sem búið er að pressa Mynd gn

„Það hefur verið mikið að gera hjá okkur síðustu daga, stöðugur straumur og sem dæmi tókum við á tókum við á móti 100 þúsund einingum á föstudag. Það er næstmesta magn sem við höfum fengið á einum degi,“ segir Indriði Helgason verkstjóri hjá Endurvinnslunni á Akureyri. Endurvinnslan sér um móttökum allra einnota drykkjarvöruumbúða hér á landi, greiðir út skilagjald, undirbýr til útflutnings og selur til endurvinnslu. Ísland var fyrsta land í heiminum til að koma á skilagjaldskerfi á landsvísu fyrir allar einnota drykkjarvöruumbúðir. Frá því fyrirtækið hóf starfsemi árið 1989 hefur náðst góður árangur í söfnuninni, skilin nálagast það að vera um 90% á ársgrundvelli.

Indriði segir að skil dag frá degi séu nokkuð misjöfn, en algengt að um 50 til 60 þúsund dósum sé skilað inn á venjulegum degi. „Við fáum svo alltaf af og til stóra daga, eftir hátíðar t.d. jól og páska og þá kemur drjúgt inn eftir verslunarmannahelgar. Fólk kemur saman í meira mæli, það eru alls kyns boð og drykkir í boði. Svo er öllu skilað inn eins og vera ber og þá er mikið að gera hjá okkur,“ segir hann.

Stanslaus keyrsla á vélunum

Indriði hefur starfað sem verkstjóri í Endurvinnslunni á Akureyri undanfarin 6 ár og segir að á þeim tími hafi mesta magnið á einum degi verið 106 þúsund dósir. „Á þannig dögum stoppar ekkert, vélarnar ganga stanslaust allan daginn,“ segir hann. Þannig var síðasti föstudagur þegar bæjarbúar streymdu með dósir sínar í endurvinnslu eftir páskaþambið. Mikið var að gera alla vikuna en langmest rétt fyrir helgi og toppnum náð á föstudag.

Indriði segir að Endurvinnslan á Akureyri sinni stóru svæði en tekið er á móti dósum af öllum Austfjörðum, allt suður til Djúpavogs og vestur um að Sauðárskróki. Þá er tekið á móti dósum frá Ísafirði, þær koma í gámum norður og eru pressaðar þar. „Við erum með góðar af afkastamiklar vélar, enda veitir ekki af þegar við fáum þetta magn inn til okkar,“ segir hann.

Akureyringar eru að sögn almennt duglegir að skila inn dósum. Þá eru nokkrir sem fara um og safna dósum á förnum vegi og geta haft drjúgar aukatekjur ef vel er haldið á spöðunum. „Það er hægt að hafa sæmilegt upp úr þessu, við borgum 20 krónur á hverja dós þannig að þetta er fljótt að koma. Það fólk sem sinnir þessu vinnur í leiðinni þjóðþrifaverk og losar okkur við að rusl af víðavangi, þannig að það er besta mál.“

Bras og kostnaður að fá glerkrukkur

Gler af ýmsu tagi kemur á stundum með í pokum þeirra sem skila, sultukrukkur, lýsis- og olíuflöskur, en það á ekki heima hjá Endurvinnslunni. Því á að skila í gáma á grenndarstöðvum. „Það er bölvað bras fyrir okkur að fá þetta gler inn, en við höfum ekki verið að amast við því, að minnsta kosti ekki að gera fólk afturreka ef það er með eina og eins krukku,“ segir Indriði. Endurvinnslan þurfi að losa sig við glerið og rukki Akureyrarbær 25 krónur fyrir hvert glerílát sem skilað er. Öllu er svo dúndrað saman og ekið með tilheyrandi kostnaði og kolefnisspori á urðunarstaðinn vestur á Sölvabakka við Blönduós. „Þetta er alveg synd að horfa upp á þetta,“ segir Indriði.

Alls konar varningur hef slæðist með í pokum bæjarbúa, eitt sinn rúlluð þessu fínu rúmföt eftir færibandinu „en líklega vorum við mest hissa þegar g-strengur rann eftir bandinu innan um dósirnar.“

Tæp 75% nýta nýja appið

Nýlega var nýtt greiðslufyrirkomulag tekið upp hjá Endurvinnslunni og getur fólk hlaðið niður þar til gerðu appi og notað í viðskiptum við fyrirtækið. Indriði er ánægður með þá sem skila inn dósum á Akureyri, tæplega 75% þeirra nýta sér nýja appið og finnst það til hagsbóta. Sambærileg tala fyrir Reykjavík er 50%, „þannig að við erum að standa okkur vel,“ segir hann. Örfáir kvarta og finnst þessi nýjung ömurleg og vilja ekki sjá þetta. „Fýlupokarnir sem vilja bara hafa þetta með gamla laginu eru kannski 0.04% þeirra sem koma. Við getum vel við unað,“ segir hann.

 

Nýjast