20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Einar Óli er Listamaður Norðurþings 2023
Listamaður Norðurþings 2023 er Einar Óli Ólafsson tónlistarmaður, laga- og textahöfundur. Einar er nýorðinn þrítugur, hann er fæddur 29. apríl árið 1993 og er Húsvíkingur í húð og hár. Hann er söngvari og lagahöfundur og hefur lokið námi á skapandi braut hjá Tónlistarskóla Akureyrar. Hann starfar sem tónlistarkennari við Tónlistarskólann á Húsavík auk þess sem hann starfar hjá félagsþjónustu Norðurþings.
Einar Óli brennur fyrir það að skapa eitthvað nýtt og sýna fóki afraksturinn, hvort sem það er gert á tónleikum, samfélagsmiðlum eða streymisveitum. Tónlist, laga- og textasmíðar veita honum andlega næringu og hann notar sköpun til hugleiðslu. Hann hefur þegar gefið út eina 9 laga plötu árið 2021, „Mind lika a maze“, og á henni er meðal annars að finna Andreu Gylfa á selló og Pálma Gunnarsson á kontrabassa.
Síðasta árið hefur verið viðburðaríkt hjá Einari Óla. Hann tók þátt í Idol stjörnuleit og vakti þar mikla athygli fyrir söng sinn, textasmíð og einlæga framkomu. Hann stefnir á að gefa út tvær smáskífur með eigin efni og eiga þær að koma út á næstu mánuðum. Sú fyrri „Where wind takes me“ er unnin með Kristjáni Edelstein gítarleikara og pródúsent og er komin ágætlega á leið. Hina ætlar hann að taka upp og útsetja sjálfur og heitir hún „Something new“.