Eina tilboðinu var hafnað

Einungis eitt tilboð barst í verkefni við fyrsta áfanga viðbyggingar við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit sem boðið var út nýverið.

Áfanginn fól í sér vinnu við sökkla, botnplötu og innfyllingar. Kostnaðaráætlun verksins hljóðaði upp á 74 milljónir króna.

Tilboð sem barst í þetta verkefni kom frá fyrirtækinu B. Hreiðarsson og var upp á tæplega 109 milljónir króna eða 47% yfir áætluðum kostnaði.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar ákvað að hafna tilboðinu. Eins var tekin um það ákvörðun á fundi sveitarstjórnar að endurskoða forsendur útboðsins og bjóða verkið út aftur á nýju ári.

/MÞÞ

Nýjast