Eftirspurn eftir lífdísel að aukast
mth@vikubladid.is
Félagið Gefn ehf hefur keypt Orkey, sem var í eigu Norðurorku. Orkey hefur tekið á móti notaðri steikingarolíu án nokkurs kostnaðar og framleitt úr henni lífdísel. Við það sparast tugir tonna af úrgangi á ári sem m.a. hefur fallið til hjá veitingahúsum og mötuneytum. Úr olíunni var gerð verðmæt vara sem sparar innflutning á eldsneyti.
Eitt tilboð barst í Orkey þegar Norðurorka setti félagið í söluferli, frá Gefn sem er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki í efnaiðnaði, sem m.a. þróar aðferðir fyrir framleiðslu umhverfisvænna íðefna.
Starfsfólk Gefnar hefur markverða þekkingu og reynslu af framleiðslu lífdísils sem og notkun hans, en fyrirtækið Orkey hefur verið í slíkri framleiðslu. Gefn stefnir á áframhaldandi rekstur Orkeyjar á Akureyri
Tímabært að hleypa öðrum að
Lífdísilframleiðsla Orkeyjar hefur verið í 100% eigu Norðurorku frá árinu 2020. Frá því að Norðurorka eignaðist félagið hefur verið unnið að því að kanna grundvöll fyrir lífdísilframleiðslu Orkeyjar. Athugað hefur verið hvernig tryggja megi gæði framleiðslunnar auk þess sem hráefnisstraumar hafa verið athugaðir. Lífdísilframleiðsla er þó ekki hluti af kjarnastarfsemi Norðurorku. Rekstrinum hefur verið sýndur áhugi og eftirspurn eftir lífdísil er að aukast, bæði sem eldsneyti og í aðra vinnslu. Stjórn Norðurorku taldi því að nú væri tímabært að hleypa öðrum, kraftmiklum aðilum að sem geta haldið áfram að þróa starfsemi Orkeyjar og auka veg fyrirtækisins að því er segir á vef Norðurorku.