Eftirspurn meiri en framboð - Þó ekki langur biðlisti

Félagsstofnun stúdenta við HA á alls 164 íbúðir og herbergi á Akureyri. Fyrsta húsnæðið var tekið í …
Félagsstofnun stúdenta við HA á alls 164 íbúðir og herbergi á Akureyri. Fyrsta húsnæðið var tekið í notkun árið 1989. Síðast var nýtt húsnæði á vegum stofnunarinnar tekið í notkun árið 2008, við Kjalarsíðu 1a og 1 b.

mth@vikubladid.is

Jóhannes Baldur

„Eftirspurn er alltaf meiri en framboð, en yfirleitt er biðlistinn hjá okkur ekki langur,“ segir Jóhannes Baldur Guðmundsson framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri, FÉSTA, en félagið rekur stúdentaíbúðir á Akureyri. Stofnunin á í allt 164 íbúðir og herbergi á Akureyri. Kennsla hefst við Háskólann á Akureyri í næstu viku og er búið að leiga út allt húsnæði sem stofnunin hefur yfir að ráða.

Félagsstofnun stúdenta við Háskólann á Akureyri á eignir við Drekagil 21, Tröllagil 29, við Klettastíg 2, 4, og 6, Útstein við Skarðshlíð 46 og við Kjalarsíðu 1a og 1b. Útsteinn var fyrsta húsnæði stofnunarinnar, tekinn í notkun árið 1989, en húsnæði við Kjalarsíðu hið síðasta og var það tekið í notkun árið 2008. Alls á stofnunin 74 3ja herberga íbúðir, 56 2ja herberga og 34 einstaklingsherbergi.

Breytingar í tímans rás

Jóhannes segir að nokkrar breytingar hafi orði,  en á fyrri tíð sóttust fjölskyldur í miklum mæli eftir stúdentaíbúðum og því var lögð áhersla á stærra húsnæði til að mæta eftirspurn. Nú sé öldin önnur, æ minni ásókn sé í stærri eignir en því meiri í þær minni. „Við eigum engar stúdíóíbúðir en það er talsvert spurt um þær og þá má nefna að okkar einstaklingsherbergi eru þannig að íbúar deila baðherbergi með öðrum. Það er ekki vinsælt núna,“ segir hann.

Félagsstofnun stúdenta við HA er nú í ákveðinni greiningarvinnu sem verður grunnur að framtíðarsýn varðandi málefni stofnunarinnar. M.a. var gerð skoðanakönnun meðal nemenda við HA og einnig í efstu bekkjum framhaldsskóla á Norður- og Austurlandi og  Jóhannes segir að þegar niðurstaða liggi fyrir verði hún höfð til hliðsjónar varðandi ákvarðanir um uppbyggingu til framtíðar.

Metaðsókn erlendra skiptinema

Hann nefnir að Háskólinn hafi stækkað mikið á umliðnum árum og nemendafjöldi vaxið, en margir stundi fjarnám og komi í lotur. Það hafi aukist umtalsvert. „Það er stór hluti nemenda sem hefur þann háttinn á,“ segir hann. Erlendir skiptinemar hafa stundað nám við HA, að meðaltali um 40 undanfarin ár en metaðsókn er nú í haust þegar yfir 50 erlendir skiptinemar eru við nám við Háskólann á Akureyri. Það fólk vill að sögn Jóhannesar leiga einstaklingsherbergi og horfa þurfi til þess að fjölga þeim í nánustu framtíð.

Félagsstofnun stúdenta við Háskólann á Akureyri var rekin með tæplega 78 milljóna króna tapi á liðnu ári og segir Jóhannes það komið til vegna hækkunar verðbóta á lánum stofnunarinnar. Alls hækkuðu verðbætur um 103 milljónir króna á liðnu ári. Stofnunin hefur verið rekin með tapi undanfarin ár og eigið fé er neikvætt en hann segir að veltufé frá rekstri hafi þó verið hærra en afborganir lána, og ekki neinn vafi á rekstrarhæfi stofnunarinnar. Skuldir stofnunarinnar nema um 2,2 milljörðum króna, og fasteignamat eigna nemur um 4,2 milljörðum.

Nýjast