Dysnes hentug staðsetning fyrir líforkugarða

Starfsfólk SSNE og Vistorku hafa unnið ötullega að undirbúningi fyrsta fasa líforkuvers undanfarna mánuði með stuðningi Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og voru niðurstöður þeirrar vinnu kynntar á Teams-fundi með sveitarstjórnarfólki þann 9. júní síðastliðinn. Á fundinum var sveitarfélögum svæðisins boðið að taka þátt í stofnun þróunarfélags um áframhald verkefnisins og var formlegt boð þess efnis sent á sveitarstjórnir á Norðurlandi eystra. Greint er frá þessu á vef SSNE.

Frumhagkvæmnimat líforkuvers í Eyjafirði var gefið út og kynnt í nóvember á síðasta ári og í kjölfarið fengu allar sveitastjórnir kynningu á verkefninu og hugmyndafræðinni að baki því. Öll aðildarsveitarfélög SSNE voru sammála um að halda áfram vinnu við verkefnið, enda mikilvægt að til sé farvegur fyrir lífrænan úrgang af svæðinu þegar ekki er lengur í boði að urða.

Búið er að brjóta verkefnið upp í fasa þar sem horft er til mismunandi úrgangsstrauma og þess hvaða vanda liggur mest á að leysa. Réttara væri að ræða um líforkugarða með þessari nálgun og verður það hér eftir gert.

Í fyrsta fasa er litið til móttöku og vinnslu dýraleifa, en EFTA dómur hefur fallið á íslenska ríkið vegna þess hve málaflokkurinn er í miklum ólestri hér á landi. Litið var til nýútkomins minnisblaðs Environice um meðhöndlun dýraleifa og þess hvernig nágrannaþjóðirnar leysa þennan vanda, leitað var til sérfræðings á sviðinu til ráðgjafar og lausn teiknuð upp með finnskum ráðgjöfum sem hafa áratugalanga reynslu af uppsetningu vinnslna á dýraleifum. Vinna undanfarinna mánaða hefur einnig falist í þarfagreiningu, útreikningi úrgangsmagns og samtali við hagaðila; landeigendur, stjórnvöld, eftirlitsstofnanir, afurðastöðvar og hagsmunasamtök bænda meðal annars. 

Fasi 1 snýr að orkuvinnslu úr dýraleifum (hræjum og áhættuvefum úr afurðastöðvum) þar sem úrgangurinn er malaður í ákveðna kornastærð, settur í þrýstisæfingu og fitupressun. Afurðir vinnslunnar eru í formi fitu sem áfram er hægt að vinna í lífidisil og er mikilvægur orkugjafi á tímum orkuskipta. Þá verður einnig til kjötmjöl sem nota má sem orkugjafa í brennslu. Þessi vinnsluaðferð uppfyllir öll öryggisviðmið og reglugerðir um meðhöndlun áhættuúrgangs. Oft er rætt um að eina leiðin til að losna við þennan úrgang sé brennsla. Sú leið er vissulega lögleg en hún samræmist ekki hugmyndum um hringrásarhagkerfi og er mjög orkufrek.

Áfram er litið til Dysness sem hentugrar staðsetningar fyrir líforkugarðana sem geta byggst upp í kringum fyrsta fasa, en starfsfólks SSNE og Vistorku hafa þegar hafið undirbúningsvinnu við fasa 2 í líforkuverinu sem snýr að vinnslu metans, en vonast er til að sá fasi geti byggst upp samhliða fasa 1. Áhersla verður lögð á samstarf við bændur á svæðinu við næstu skref.

Nýjast