27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Dorgað á bryggjunni
Bakþankar
Egill P. Egilsson skrifar
Loksins hefur mér tekist að vekja áhuga sona minna tveggja á stangveiði en ég hef reynt mikið undan farin sumur án árangurs.
Ég fer seint að kalla sjálfan mig merkilegan stangveiðimann en það sem helst stendur uppúr þegar ég skoða æskuna í baksýnisspeglinum; þá eru það allar þær fjölmörgu stundir sem ég eyddi með vinum mínum niðri á bryggju á Húsavík með stöng eða færi. Aflabrögðin voru mikil og ekki óalgengt að tugir, jafnvel hundrað fiskar hafi náðst á land.
Það hefur mikið breyst á hafnarsvæðinu frá þessum tíma og ekki síður í viðhorfi fólks. Þegar ég var gutti var mikið um að vera fyrir neðan bakka og allt tengt fiskveiðum. Oft sá maður smáhveli, blöðrusel og jafnvel beinhákarl á bryggjukantinum. Það þótti okkur strákunum alltaf jafn merkilegt. Spörkuðum tánni lauslega í hræin og vorum montnir yfir því sem fyrir augu bar, líkt og við hefðum sjálfir með hreisti okkar dregið þessar skepnur að landi.
Oftar en ekki klifruðum við um borð í einhverja af þeim fjölmörgu trillum sem gerðar voru út frá Húsavík á þeim tíma, þaðan dorguðum við með svörtum Toby sem Dúddi hafði selt okkur í Hljóð og sport. Stundum fengum við lánaða gogga í trillunum og notuðum þá til að húkka upp ufsa sem voru í torfum við frárennslið frá gamla sláturhúsinu. Aldrei man ég eftir að nokkur maður hafi amast yfir þessu hjá okkur nema síður væri. Og ekki man ég eftir að nokkurn tíma hafi nokkur hafi áhyggjur af okkur bútungunum eftirlitslausum niðri á bryggju. Þetta var bara hluti af menningunni.
Nema í eitt skipti… Þegar ég var einn niðri á bryggju og Bendi kom hlaupandi, lafmóður og óðamála; greip mig þar sem ég var kíkja yfir bryggjukantinn, skóflaði mér inn í bíl og skutlaði mér heim. Á leiðinni stamaði hann út úr sér að ég ætti að vera í björgunarvesti, en þarna var ég nú bara fimm ára.
Það er svo spurning hvor hafi meira þurft á áfallahjálp við þessa lífsreynslu, ég eða Bendi. Ég man að minnsta kosti eftir því að næst þegar ég fór niður á bryggju var ég í allt of stóru björgunarvesti af bróður mínum. Mamma hefur eflaus sagt að ég myndi stækka upp í það.