Dagur íslenskrar tungu Útgáfuhóf -100 árum eftir útkomu fyrstu Nonnabókarinnar!

Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri með dönsku útgáfu bókarinnar Nonni og fyrs…
Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri með dönsku útgáfu bókarinnar Nonni og fyrstu íslensku útgáfuna sem á 100 ára afmæli í ár. Þess verður minnst með veglegri Nonnahátíð í Nonnasafninu um helgina.

Nonnahátíð verður haldin í Nonnahúsi næstu daga og hefst dagskráin í dag , á Degi íslenskrar tungu, sem jafnframt er afmæli barnabókarithöfundarins Jóns Sveinssonar, Nonna. Deginum deilir hann með Jónasi Hallgrímssyni en á milli þeirra voru 50 ára.

„Við teljum ærið tilefni til að fagna,“ segir Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri en efnt var til síðbúins útgáfuhófs í tilefni útkomu fyrstu Nonnabókarinnar á íslensku –100 árum eftir útkomu hennar. 

Handrit að fyrstu bók Nonna sem hann skrifaði á dönsku og þýðing Freysteins Gunnarssonar verður til sýnis  í Nonnahús fram á sunnudag. Sú sýning ber yfirskriftina Handritin heim. Landsbókasafn-Háskólabókasafn sem varðveitir skjalasafn Jóns Sveinssonar lánar handritin tímabundið til safnsins. „Það er gríðarmikill fengur að því fyrir okkur að fá þetta lánað og mikill heiður að sýna handritið í sjálfu Nonnahúsi,“ segir hann.

Annað tilefni til að halda upp á tímamótin er að nú í ár, á 100 ára afmæli fyrstu bókarinnar, Nonni, er upplestur á henni aðgengilegur á Storytel, en Hinrik Ólafsson sá um lesturinn.

Margs konar viðburðir verða í tengslum við Nonnahátíð, en boðið verður upp á leiðsögn um húsið þessa daga, lesið verður upp úr bókinni um Nonna, gestum býðst að myndskreyta Nonnabók. Á laugardag kynnir Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur nýjustu  bók sína, Dularfulla hjólahvarfið og á sunnudag koma þau Petrea og Michael, kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri og leika á þverflautu og klarinett á Minjasafninu.

Góð aðsókn hefur verið í Nonnahús í ár, um 10 þúsund gestir hafa skoðað húsið og þá muni sem það hefur að geyma. „Þetta er prýðisgóð aðsókn, meiri en oft áður og það á eftir að bætast við því við verðum með jóladagskrá hjá okkur á aðventunni sem og fáum skólaheimsóknir, svo líklega endar þetta með um 12 þúsund gestum,“ segir hann.

 

Nýjast