Tók öryggismálin í sínar hendur

Alexander Anton Halldórsson, nemandi í 5. bekk grunnskóla Fjallabyggðar á Ólafsfirði, hefur tekið öryggismálin í eigin hendur með því að koma því til leiðar að öllum bekkjarsystkinum hans verði útveguð öryggisvesti til að klæðast þegar þau eru úti að hjóla.
 
Öryggismálin eru Alexander Antoni mikið hjartans mál. Forsaga málsins er sú að áður en hann flutti norður bjó Alexander á Selfossi, þar sem hann hafði fengið mörg börn á sínum aldri til að klæðast öryggisvestum og nota öryggishjálm þegar þau voru úti að hjóla. Þegar hann flutti til Ólafsfjarðar varð hann þess fljótlega áskynja að hann var sá eini sem klæddist öryggisvesti.
 
Hann tók því málin í sínar hendur og ræddi málin um leið og hann kom heim. Spurði hvort heimilismenn gætu ekki keypt öryggisvesti á hópinn. Til að gera langa sögu stutta barst fréttin til eyrna útibússtjóra Sjóvár á Dalvík og um leið fóru hjólin að snúast – enda til mikillar fyrirmyndar það frumkvæði sem pilturinn ungi hefur sýnt.
 
Sjóvá ákvað að gefa nemendum 5. bekkjar í Grunnskóla Fjallabyggðar, en börnin í bekknum eru bæði frá Ólafsfirði og Siglufirði. Vestin voru afhent í gær.

 


 

Nýjast