Orðið "strax" ekki teygjanlegt hugtak
Framsýn stéttarfélag krefst þess að ríkistjórnin standi við gefin kosningaloforð og taki á skuldavanda heimilanna strax. Í huga Framsýnar er orðið strax ekki teygjanlegt hugtak. Í ályktun sem félagið sendi frá sér í morgun er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar harðlega gagnrýnt.
Framsýn gagnrýnir framkomið fjárlagafrumvarp sem felur í sér auknar álögur á launafólk í formi aukinnar skattheimtu s.s. í formi hækkunar á komugjöldum á sjúkrahús, innlagna á sjúkrahús, bensín- og olíugjaldi. Þá skila boðaðar skattalækkanir á tekjuskatti sér ekki til þeirra lægst launuðu heldur aðeins til þeirra tekjuhærri. Það á einnig við um frekari breytingar á skattkerfinu sem fjármálaráðherra hefur talað fyrir. Það er að tekið verði upp eitt skattþrep á kjörtímabilinu. Láglaunafólk, öryrkjar og ellilífeyrisþegar eru skyldir eftir sem er óskiljanlegt að mati félagsins enda búa þessir hópar almennt við lökustu kjörin í dag. Þeim er ætlað að greiða sambærilega skatta áfram, þetta eru greinilega breiðu bökin að mati ríkistjórnarinnar, segir í ályktun Framsýnar.
Framsýn skorar jafnframt á elítuna að taka hendur úr vösum og leggjast á árarnar með almennu verkafólki með það að markmiði að byggja upp þjóðfélag án ójöfnuðar og misskiptingar. Við annað verður ekki unað enda núverandi ástand þjóðarskömm.