Erró í Hofi á Akureyri
Tuttugu og átta grafíkverk eftir Erró sem eru í eigu Listasafns Reykjavíkur munu prýða veggina í Menningarhúsinu Hofi í vetur en árið 1989 gaf Erró safninu um tvö þúsund verk sem spanna allan feril listamannsins. Verkin sem verða til sýnis í Hofi eru litógrafíur og silkiþrykk.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdarstjóri Hofs segir í tilkynningu samstarfið við Listasafn Reykjavíkur virkilega ánægjulegt. Það er mikill heiður fyrir okkur að fá að sýna verk eftir þennan virta listamann hér í Hofi og vonandi sjá sem flestir norðlendingar, og aðrir sem eiga leið um bæinn sér fært að heimsækja Hof í vetur og njóta sýningarinnar. Sýningin er öllum opin á opnunartíma hússins og verkin eru litrík og lifandi og njóta sín einstaklega vel á gráu sjónsteypuveggjunum í Hamragili.
Sýningin á verkum Errós opnar á laugardaginn og stendur til 21. apríl.