Bílaþjófur gengur laus
Bílarnir tveir sem stolið var á Akureyri í vikunni með skömmu millibili eru fundnir. Annar bíllinn fannst í fyrradag á bílastæði í Gilinu en hinn við Tjarnalund í nótt. Bílarnir, sem voru báðir af gerðinni Subaru Impreza, voru óskemmdir og mannlausir þegar þeir fundust. Lögreglan á Akureyri segir málið einkennilegt þar sem bílaþjófnaður sé fátíður í bænum. Óvíst er hvort málin tengjast en lögreglan telur líklegt að um sama þjóf sé að ræða. Málið er áfram í rannsókn og þeir sem geta veitt upplýsingar um málið eru hvattir til þess að hafa samband við lögreglu í síma 464-7700.