101. þáttur 10. október 2013

Íslensk mannanöfn

Við erum það sem við heitum. Nöfn okkar eru óaðskiljanlegur hluti af sjálfum okkur og margir taka nærri sér, ef rangt er farið með nafn þeirra eða þeir uppnefndir, og flestir eiga erfitt með að hugsa sér að breyta um nafn. Mannanöfn hafa hins vegar breyst í tímans rás og valda venjur - hefð og tíska - hvaða nöfn eru algengust á hverjum tíma. Á vefnum island.is er unnt að finna öll samþykkt eiginnöfn drengja og öll samþykkt eiginnöfn stúlkna, eins og það er orðað. Samkvæmt könnun, sem gerð var fyrir nokkrum árum, voru í notkun á Íslandi liðlega 2500 kvenmannsnöfn og tæplega 2000 karlmannsnöfn.

Tíu algengustu eiginnöfn kvenna í þjóðskrá eru: Guðrún (5155), Anna (4313), Sigríður (3801), Kristín (3672), Margrét (3044), Helga (2890), Sigrún (2615), Ingibjörg (2375), Jóhanna (2016) og María (1906). Algengustu skírnarnöfn stúlkna um þessar mundir eru: Sara, Anna, Emelía, Katrín, Eva, María, Guðrún, Kristín, Margrét og Júlía.

Tíu algengustu eiginnöfn karla í þjóðskrá eru: Jón (5538), Sigurður (4482), Guðmundur (4202), Gunnar (3244), Ólafur (2886), Einar (2533) Magnús (2395), Kristján (2310) Stefán (2125) og Jóhann (1977). Algengustu skírnarnöfn pilta um þessar mundir eru: Jón, Daníel, Aron, Viktor, Alexander, Arnar, Guðmundur, Gabríel, Kristján og Stefán.

Um nafngiftir gilda Lög um mannanöfn nr. 45/1996. Þar segir m.a.:

Fullt nafn manns er eiginnafn hans eða eiginnöfn, millinafn, ef því er að skipta, og kenninafn. Eiginnöfn og millinafn mega aldrei vera fleiri en þrjú samtals. Hverju barni skal gefa eiginnafn, þó ekki fleiri en þrjú. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls, nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Heimilt er að gefa barni eitt millinafn auk eiginnafns þess eða eiginnafna, dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Kenninöfn eru tvenns konar, föður- eða móðurnöfn og ættarnöfn. Hver maður skal kenna sig til föður eða móður nema hann eigi rétt á að bera ættarnafn og kjósi að gera svo. Manni er enn fremur heimilt að kenna sig til beggja foreldra sinna eða bera ættarnafn sem hann á rétt á, til viðbótar því að kenna sig til föður eða móður.

Dómsmálaráðherra skipar mannanafnanefnd til fjögurra ára í senn. Nefndin skal semja skrá um eiginnöfn og millinöfn sem heimil teljast og er skráin nefnd mannanafnaskrá.  Nefndin skal vera til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr ágreiningsefnum um nöfn samkvæmt lögunum. 

Í næsta þætti verður fjallað um merkingu og sögu nokkurra íslenskra mannanafna.

Tryggvi Gíslason

tryggvi.gislason@simnet.is

Nýjast