Brýnt en kostnaðarsamt að rafvæða íslenskar hafnir
Akureyrarhöfn stefnir að því að ljúka uppbyggingu fyrir raftengingu farþegaskipa í höfnum Akureyrar eins fljótt og auðið er en nú þegar má segja að allir togarar og minni skip tengi sig við rafmagn í höfnum bæjarins.
Síðustu misserin hefur sjónum verið beint að þeirri mengun sem útblástur skemmtiferðaskipa getur valdið og er brýnt að finna lausn á þeim vanda. Hins vegar má ljóst vera, að sögn Péturs Ólafssonar hafnarstjóra á Akureyri, að rafvæðing hafna fyrir stærri skemmtiferðaskip er gríðarstórt verkefni sem íslenskar hafnir hafa ekki bolmagn til að fjármagna nema með verulegum fjárhagslegum stuðningi ríkisins þar sem kostnaður við slíkar landtengingar hleypur á milljörðum króna.
„Fyrsta skrefið í rafvæðingu Akureyrarhafnar var stigið þegar öflugum háspennutengingum var komið upp við Tangabryggju. Áður en langt um líður geta minni skemmtiferðaskip tengst rafmagni þar og verður þannig dregið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þessi framkvæmd kostaði um 250 milljónir króna og hefur Hafnarsamlag Norðurlands að mestu leyti fjármagnað hana. Nú er að hefjast endurbygging Torfunefsbryggju og stefnt er að sambærilegri tengingu þar. Stærri skref verða vart stigin nema með enn meiri aðkomu ríkisins,“ segir Pétur.
Í þessu samhengi er vert að benda á að ríkissjóður hefur mikinn fjárhagslegan ávinning af komu skemmtiferðaskipa í íslenskar hafnir. Í könnun sem gerð var fyrir Cruise Iceland árið 2018 kemur fram að komur skemmtiferðaskipa skila ríflega 16 milljörðum króna í þjóðarbúið árlega og skapa um 920 heilsársstörf. Ríkið fær skatttekjur í formi vitagjalda og tollafgreiðslugjalda og hafnir fá tekjur af hafna- og þjónustugjöldum; umboðsmenn veita skipunum nauðsynlega þjónustu, annast samskipti við hafnir, opinbera aðila og birgja; ferðaþjónustan skipuleggur ferðir og rútufyrirtæki og leiðsögumenn koma ferðamönnum á leiðarenda; birgjar sjá um aðföng skipanna og svo má nefna þjónustu skemmtikrafta, viðgerðarþjónustu, sorphirðu og margt fleira. Þjóðhagslegur ávinningur af komu skemmtiferðaskipanna er því verulegur og teygir anga sína víða.
Pétur Ólafsson vekur loks athygli á því að í reglugerð um útblástur skipa sem tók gildi 1. janúar 2020, sé ákvæði um að ekkert skip sem liggi við bryggju á Íslandi megi nota svartolíu og nú sé svo komið að engin skemmtiferðaskip noti svartolíu í mengunarlögsögu Íslands. Hámark brennisteinsinnihalds í skipaeldsneyti megi ekki vera meira en 0,5% og ný lofthreinsikerfi skemmtiferðaskipa hafi þá eiginleika að minnka losun brennisteinstvíoxíðs um 98%. Öllum skipum við bryggjur er skylt að nýta sér rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis ef það er mögulegt. Það gildir einnig um stór skemmtiferðaskip.
Frá þessu greinir heimasíða Akureyrar