Breyting samþykkt á skipulagi Drottningarbrautarreits
Breyting á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits hefur verið samþykkt vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar syðst á reitnum. Breytingin nær til Hafnarstrætis 80 og Austurbrúar 10-12. Felur hún í sér að í stað þess að gera ráð fyrir stóru hóteli á svæðinu er gert ráð fyrir 60-70 nýjum íbúðum auk íbúðahótels ásamt verslunar- og þjónustustarfsemi á neðstu hæð. Þá er gert ráð fyrir aukinni hámarkshæð húsa við Austurbrú miðað við fyrra skipulag og lagt til að fyrirhuguð viðbygging við Hafnarstræti 82 verði færð sunnan við húsið þannig að torg myndist að norðanverðu sem tengi Hafnarstræti inn í nýju byggðina.
Tillagan var auglýst 12. maí með athugasemdafresti til 23. júní. Engar almennar athugasemdir bárust en umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands, Vegagerðinni og Norðurorku. Skipulagsráð lagði til við bæjarstjórn í byrjun júlí að tillagan verði samþykkt með minniháttar breytingu á greinargerð gagnvart Hafnarstræti 82 um að hafa þurfi samráð við Minjastofnun Íslands um breytingar á húsinu.
Bæjarráð, sem hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í júlí og ágúst 2021, samþykkti í kjölfarið deiliskipulagsbreytinguna með þeim fyrirvörum sem skipulagsráð lagði til, segir á vef Akureyrarbæjar.