13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Bjartsýnn á að ferðaþjónusta sæki í sig veðrið í ár
„Það lítur allt þokkalega út og við erum bjartsýn og spennt fyrir nýju ári að því gefnu auðvitað að ekki komi upp enn frekari óvæntar hindranir vegna kórónuveiru,“ segir Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds - Bílaleigu Akureyrar . Bókanir fyrir árið séu góðar og margt sem vinni með Íslandi á þessum tímum. Góður viðsnúningur varð á rekstri bílaleigunnar þegar leið á árið 2021, eftir afleitt ár þar á undan.
Steingrímur segir margt vinna með Íslandi þegar kemur að ferðaþjónustu. Flug til landsins sé fremur stutt, landið almennt öruggt og ferðmenn sæki í að upplifa náttúru og víðerni í stað þess að heimsækja yfirfullar stórborgir. „Það er hægt að merkja við okkur í nánast öll box hvað markaðsrannsóknir varðar, og við erum hóflega bjartsýn á að ferðaþjónusta sæki jafnt og þétt í sig veðrið eftir því sem líður á árið,“ segir hann.
Ánægjulegur viðsnúningur þegar leið á haustið
Liðið ár var sérstakt að sögn Steingríms, en síðsumars fóru hjólin að snúast og voru síðustu mánuðirnir verulega góðir, mun betri en árin tvö þar á undan. „Það kom okkur nokkuð á óvart hvað þessi síðustu mánuðir voru góðir og sérstaklega að meira var að gera en í lok árs 2019, fyrir kórónuveiru. Það var ánægjulegur viðsnúningur sem gerði að verkum að síðastliðið ár kom vel út í heildina,“ segir hann. Félagið var rekið með tapi 2020 og fyrri hluta 2021. Það vannst til baka og gott betur, þannig að niðurstaðan var að árið í heild kom vel út. „Vissulega var árið oft og tíðum erfitt fyrir okkar frábæra starfsfólk enda þurfti að mörgu að hyggja en með mikilli vinnu og samheldnikomumst við í gegnum það.“