Beint frá býli fagnar 15 ára afmæli með viðburði í Holtseli í Eyjafjarðarsveit

Heimilisfólkið í Holtseli Arna Mjöll Guðmundsdóttir, Styrmir Frostason, Fjóla Kim Björnsdóttir.
Arn…
Heimilisfólkið í Holtseli Arna Mjöll Guðmundsdóttir, Styrmir Frostason, Fjóla Kim Björnsdóttir. Arna Mjöll Guðmundsdóttir, Styrmir Frostason, Fjóla Kim Björnsdóttir, sem reka búið að Holtseli nú og hjónin Guðmundur Jón Guðmundsson og Guðrún Egilsdóttir sem áður ráku búið. Mynd Eydís Eyjólfsdóttir

„Þetta er vissulega krefjandi vinna á köflum, en engu að síður mjög skemmtileg og fjölbreytt, það er ekki einn einasti dagur eins,“ segir Fjóla Kim Björnsdóttir sem ásamt eiginmanni sínum Styrmi Frostasyni og Örnu Mjöll Guðmundsdóttur rekur kúabúið að Holtseli í Eyjafjarðarsveit ásamt samnefndri ísgerð og verslun. Samtökin Beint frá býli fagna 15 ára afmæli næstkomandi sunnudag, 20. Ágúst með viðburðum um allt land. Einn þeirra verður haldinn í Holtseli og taka 16 býli eða félög á Norðurlandi eystra þátt. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra auk Beint frá býli standa að þessum viðburði og verður heilmargt í boði.

 Fjóla Kim og Arna Mjöll eru bræðradætur, en sú síðarnefnda er dóttir Guðmundar Jóns Guðmundssonar og GuðrúnarEgilsdóttur sem ruddu brautina varðandi framleiðslu á ís heima á býli. Þau byrjuðu að búa til ís árið 2006. Samtökin Beint frá býli voru stofnuð nokkru síðar eða í apríl 2008. 

Guðmundur og Guðrún höfðu áhuga á því að næsta kynslóð tæki við búinu og opnaðist þá tækifæri fyrir Fjólu og Styrmi að taka við keflinu, en áhugi var fyrir því að búið yrði áfram rekið innan fjölskyldunnar.

Óvænt tækifæri til að flytja norður í sveitina

„Það má segja að okkur hafi boðist þetta óvænta tækifæri að koma norður í sveitina og prófa að sinna allt annars konar störfum en við höfðum áður gert,“ segir Fjóla en þau hjónin, hún og Styrmir eru bæði fædd og uppalin í Reykjavík.  Fjóla er viðskiptafræðingur og Styrmir flugvirki. Arna Mjöll ólst upp í Holtseli og þekkir þarf hverja þúfu, en hún er lærður ljósmyndari. Þau þrjú hafa í sameiningu rekið búið og því sem fylgir frá því í ársbyrjun 2020. Þau höfðu í hyggju að breyta til og stefnu að því að vera fyrir norðan í eitt ár og halda svo aftur í sína heimahaga í höfðuðborginni. „En við erum hér enn og erum að klára ættliðaskipti á býlinu, en við munum reka bæði búið og ísgerðina ásamt verslun og sölu á margvíslegum varningi frá öðrum býlum hér og hvar af landinu,“ segir Fjóla. „Við erum þá fjórða kynslóðin sem rekur búið og það helst áfram innan fjölskyldunnar.“ 

Góður tími fyrir samveru með börnum

Fjóla segir að vel hafi gengið og stórfjölskyldan hjálpist að, „við erum hér eins og eins stór fjölskylda og borðum oft saman og eigum góðar stundir. Það er mikilvægt í dagsins önn, við tökum spjall um dýrin og hvað hefur borið hæst þann daginn auk þess sem við lærum mikið af þeim Guðrúnum og Guðmundi sem eru óþreytandi að miðla af langri reynslu sinni.“

Helst kosturinn við að búa í sveitinni segir hún verið frelsið til að stjórna degi sínum, útivera vegur þungt og dýrin á bænum. „Það er alltaf verið að sinna fjölbreyttum verkefnum, hér er lítil sem engin umferð og það gefst mikið tóm til að nýta til samveru með börnum og maka. Allt þetta finnst mér mikils um vert, en auðvitað má segja að gallinn við að búa hér er fjarlægðin frá foreldrum og vinum sem búa í Reykjavík.“ Fjóla nefnir að hún og Arna séu á sama aldri og eigi börn á svipuðum aldri, „svo þetta er einstakt tækifæri fyrir okkur og börnin að vera svona mikið saman og upplifa sveitalífið.“

 Vel hefur gengið með ísframleiðslu öll þau ár sem hann hefur verið búin til á Holtseli og segir Fjóla að bæði sé hann til sölu í nokkrum verslunum hér og hvar um landið en einnig kaupi veitingahús ísinn til að hafa á sínum matseðli. Í allt eru um 300 bragðtegundir í boði undir vörumerkinu Holtselshnoss og því úr nægu úrvali að moða langi fólk að bragða heimagerðan gæðaís.

16 býli taka þátt

Hún kveðst hlakka mjög til að taka á móti gestum í Holtseli á sunnudag, en opið frá frá kl. 13 til 17. Boðið verður upp á kaffi og köku, grillaðar pylsur og djús. Börnum gefst kostur á að spreyta sig við að skreyta heyrúllur og þá verða krítar og blöðrur á svæðinu til að lífga upp á afmælisstemmninguna. Opið verður inn í fjós og hundurinn Spori tekur fagnandi á móti gestum. Hænurnar sem vappa um hlaðið láta sig heldur ekki vanta og munu örugglega gleðja gesti sem koma við og kynna sér það sem í boði er hjá félagsmönnum Beint frá býli á Norðurlandi eystra. Alls taka 16 býli eða félög þátt í viðburðinum með varning af ýmsu tagi.

 

Nýjast