Beðið eftir samþykki samræmingarnefndar
Eins og komið hefur fram samþykkti sveitarstjórn Norðurþings í maí, viðaukasamning og uppfærði álitsgerð KPMG um uppfærðan kostnað við byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík. Einnig var samþykkt kostnaðarskipting á milli heilbrigðisráðuneytis og sveitarfélagana sem að verkefninu standa.
Næstu skref eru að fá samþykki frá Samræmingarnefnd um opinberar framkvæmdir áður en útboð getur farið fram.
Bíða eftir svörum
„Það fór bréf á Samræmingarnefnd í lok síðustu viku og ég var svo í samskiptum við ríkið í morgun [mánudag] um hvenær sú nefnd kemur saman. Ég er ekki komin með svör við því,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings í samtali við Vikublaðið og bætir við að hún hafi verið í samskiptum við ríkið tvisvar í viku til að ýta á eftir ferlinu.
Horfið frá því að breyta hönnun
Þá segir Katrín að kostnaðarskipting á framkvæmdum sé sú sama og talað var um fyrr í vetur. Talað hefur verið um að hún sé 85% á höndum ríkisins og 15% á höndum sveitarfélaganna. Katrín áréttar að kostnaður sveitarfélaganna sé þó meiri en 15% þar sem kostnaður við viðbótarrými lendi á sveitarfélögunum. „Við erum alltaf að borga nokkur rými í viðbót. Kostnaðarskiptingin er svipuð og hún var í vetur en okkur tókst að hagræða aðeins í innanstokksframkvæmdunum. Við ákváðum svo að fara í fjölnota salinn sem áður var búið að hætta við, þannig að byggingin verður eins og upphafleg hönnun gerir ráð fyrir. Það var of kostnaðarsamt að fara hanna húsið upp á nýtt með því að taka hann út,“ segir Katrín.
Þá segir Katrín að tímalína verkefnisins sé sú að hjúkrunarheimilið verði tilbúið til notkunar 33 mánuðum eftir að Samræmingarnefnd hefur samþykkt framkvæmdina. Heildarkostnaður framkvæmdanna verður gerður opinber eftir að útboð hefur farið fram.