Beðið eftir áhugasömum aðila um Dysnes
Pétur Ólafsson hafnastjóri á Akureyri segir mikla og merka fornleifafundi í Dysnesi ekki hafa áhrif á væntanlega uppbyggingu hafnarsvæðis sem þar á að rísa. Eins og fjallað hefur verið um undanfarið er um einstakan fornleifauppgröft að ræða í Dysnesi og m.a. hefur fundist víkingasverð og bátskuml, þar sem að minnsta kosti einn maður hefur verið grafinn með báti og sverði.
„Fornaleifauppgröftur er liður í því að kanna svæðið og klára þá undirbúningsvinnu sem þarf til að fá framkvæmdaleyfi. Það voru allar líkur á því að eitthvað myndi finnast,“ segir Pétur, en eflaust reiknaði fólk ekki með slíkum uppgreftri.
Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og fleiri fyrirtæki stofnuðu félag sem ætlað er að markaðsetja hafnarsvæðið á Dysnesi við Eyjafjörð í tengslum við námu-og olíuvinnslu á Norðurslóðum. Allar aðstæður benda til þess að þar sé hentugt að byggja upp öflugt iðnaðar-, athafna-og hafnarsvæði.
Pétur segir að enn sé beðið eftir áhugasömum aðila til að nýta svæðið. „Hingað til hefur ekki mikið verið spurt um þetta,“ segir Pétur. Alls óvíst er hvenær framkvæmdir geti hafist á uppbyggingu hafnarsvæðis og höfnin tekin í notkun.
„Uppbyggingartímabilið tekur mörg ár og ekki gott að segja hvenær það hefst, en ég vona að það verði sem fyrst,“ segir Pétur.