6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Bæjarstjórn Akureyrar Rætt um reglur varðandi lokun gatna
Á fundi bæjarstjórnar í gær lagði Hilda Jana Gísladóttir Samfylkingu sem var málshefjandi fram tillögu um lokun ,, þess hluta Hafnarstrætis sem kallast göngugatan verði alfarið lokuð vélknúnum ökutækjum yfir sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst. Á þeim tíma verði þó tryggt aðgengi fyrir P-merkt ökutæki fyrir hreyfihamlaða, ökutæki slökkviliðs og sjúkrabíla sem og aðgengi rekstraraðila vegna aðfanga.“
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir VG tók einnig til máls og lagði fram tvær tillögur í málinu.
Sú fyrri var svohljóðandi :
,,Bæjarstjórn samþykkir að orðalag í samþykkt Akureyrarbæjar um verklagsreglur fyrir tímabundnar lokanir gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja verði samræmt við heiti verklagsreglna með þeim hætti að þar sem er talað um lokanir fyrir umferð, verði talað um lokanir fyrir umferð vélknúinna ökutækja.“
Seinni tillaga Jönu Salóme:
,,Bæjarstjórn samþykkir að 3. gr. um lokun Listagils verði breytt með þeim hætti að hámarki lokana á tímabilinu maí til september fari úr fjórum lokunum í sex.“
Lára Halldóra Eiríksdóttir Sjálfstæðisflokki lagði svo fram tillögu sem var samþykkt með níu atkvæðum en þær Hilda Jana og Jana Salóme sátu hjá.
Tillaga Láru Halldóru var svona:
,,Bæjarfulltrúar meirihlutans leggja til að málinu verði vísað til skipulagsráðs og því falið að leggja mat á reynslu síðasta sumars á núgildandi reglum og taka til umræðu tillögur bæjarfulltrúa Hildu Jönu og Jönu Salóme. Skipulagsráð ljúki yfirferðinni og leggi fram tillögu til bæjarstjórnar í maí 2023.“