Baðstaður við sjóvarnargarðinn á Hjalteyri
mth@vikubladid.is
Til stendur að setja upp baðstað á Hjalteyri í Hörgársveit. Unnið er að verkefni sem snýst um að hanna og byggja heita laug við sjávarsíðuna og verður hún með góðu aðgengi ofan í fjöru fyrir sjósund. Hjalteyri ehf. vinnur að þessu verkefni sem er eigandi af gömlu síldarverksmiðjunni og yrði hluti af verksmiðjunni notaður undir starfsemina.
Kolbrún Lind Malmquist verkefnastjóri atvinnu- menningar- og upplýsingamála hjá Hörgársveit segir að atvinnu- og menningarmálanefnd sveitarfélagsins hafi lagt fram tillögu um hvaða áfangastaðir innan sveitarfélagsins fari inn í áfangastaðaáætlun að þessu sinni og gerði m.a. tillögu um baðstað á Hjalteyri. Sveitarstjórn hefur samþykkt tillöguna.
Baðstaður á Hjalteyri
Markmið með baðstað á Hjalteyri er að sögn Kolbrúnar, að byggja upp innviði á þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins og skapa aðdráttarafl fyrir íbúa og gesti. „Það eru fyrir ýmis tækifæri til að bæta gæði og aðgengi að góðu útivistarsvæði á Hjalteyri, sem hefur góð áhrif á lýðheilsu, skapar staðnum sérstöðu og hefur aðdráttarafl. Á staðnum er mjög gott útsýni yfir Eyjafjörð og nálægðin við hafið er mikil,“ segir Kolbrún. Heitur pottur hefur verið framan við Verksmiðjuna á Hjalteyri og er hann oft vel sóttur. Nú stendur til að taka skrefið lengra og gera góða og fína steypta heita laug með aðgengi ofan í fjöruna en einnig er innifalið í verkefninu gerð göngustíga meðfram strandlengjunni.
Auk baðstaðarins voru fjögur önnur verkefni sett inn á áfangastaðaáætlun nú, hjóla- og göngustígur, Davíðslundur, Hraun í Öxnadal og áningarstaðir á söguslóðum í Hörgársveit.
Fjölmargir áhugaverðir sögustaðir
Kolbrún segir að mikill áhugi og metnaður sé innan sveitarfélagsins að nýta þá mörgu sögustaði sem innan þess finnast, koma upp áningarstöðum þar og gera þá aðgengilegri fyrir bæði heima- og ferðafólk. „Við settum inn á áfangastaðaáætlun núna verkefni sem ber yfirskriftina Áningarstaðir á söguslóðum í Hörgársveit og höfum þar að markmiði að varðveita og efla menningararf sveitarfélagsins,“ segir hún og nefnir sem dæmi Myrká, Skipalón og Hlaðir sem dæmi. „Verkefnið snýst um að kortleggja þessa sögustaði í sveitarfélaginu en þar er af nægu að taka, „ segir hún en að auki má nefna Gásir, Skriðu þar sem var vagga trjáræktar á Norðurlandi, Bægisá og Möðruvelli.
„Við erum að fara í stefnumótunarvinnu og ætlum okkur að fara yfir þessa frægu sögustaði sem við höfum innan sveitarfélagsins, en það er vilji fyrir því að skapa okkur ímynd þar sem hinu sögulega er gert hátt undir höfði. Þetta verður fyrsta skrefið í þá átt,“ segir hún um verkefnið sem fram undan er.
Hjóla- og göngustígur á hönnunarstigi
Unnið er að hönnun göngu- og hjólastíg frá Þelamörk og að Akureyri og segir Kolbrún að horft sé til þess hvort hægt sé að nýta vinnu við lagningu Dalvíkurlínu 2 sem er að hefjast samhliða lagningu stígsins. Gert er ráð fyrir að gönguskíðapor verði lagt á stíginn yfir vetrarmánuðina.Þegar stígurinn hefur verið hannaður og settur á deiliskipulag þarf að semja við landeigendur, fjármagna verkefnið og ráða verktaka. Kolbrún segir hjóla- og göngustíga njóta vinsælda og séu víðast hvar þar sem þeir eru lagðir vel nýttir. Vegagerðin og Hörgársveit standa straum af kostnaði að mestu leiti, en stefnt er að því að nýi stígurinn verði tilbúinn árið 2024 eða 2025. „Þessi stígur mun auka til muna umferðaröryggi fyrir gangandi og hjólandi umferð meðfram þjóðvegi 1.“
Innviðir bættir við Hraun í Öxnadal
Eitt verkefnið sem samþykkt hefur verið inn á áfangastaðaáætlun varðar Hraun í Öxnadal, fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar. Það snýst um að varðveita hús og fólkvang umhverfis og gera aðgengilegra fyrir ferðafólk. Verkefnið snýst um að laga heimreið og gera bílastæði, útbúa og merkja gönguleiðir ásamt því að setja upp upplýsinga- og söguskilti. „Það er ýmislegt sem færa má til betri vegar við Hraun og að því er stefnt með þessu verkefni. Betri innviðir á svæðinu munu örugglega auka aðsókn að stórbrotnu náttúrusvæði sem þar er að finna,“ segir hún.
Davíðslundur endurhannaður
Loks má nefna Davíðslund sem er í Fagraskógi, minningarlundur um Davíð Stefánsson skáld sem kenndi sig við bæinn Fagraskóg. Þar er brjóstmynd af skáldinu sem þarfnast viðgerðar. Útbúa þarf nýja aðkomu að lundinum og bæta við bílastæðum og umferðarmerkingum. „Þetta verkefni felst í því að endurhanna Davíðslund og gera hann aðgengilegan almenningi,“ segir Kolbrún, en starfshópurinn Sólarfjöll sem er áhugahópur um endurgerð garðsins stendur að verkefninu.