Ávinningur fyrir skólann til framtíðar litið

Oddeyrarskóli  Mynd af vefsíðu skólans
Oddeyrarskóli Mynd af vefsíðu skólans

„Eftir að hafa velt málinu fyrir mér og metið kosti og galla sé ég þó í þessu mikinn ávinning fyrir skólann. Við fáum nýtt rými sem uppfyllir ströngustu kröfur um loftgæði og gefur okkur tækifæri til að auðga skólastarfið enn frekar að samningstíma loknum,“ segir í bréfi sem Anna Bergrós Arnarsdóttir skólastjóri sendi foreldrum barna í Oddeyrarskóla í vikunni vegna fyrirhugaðrar leikskóladeildar í húsnæði skólans. Kveðst hún í fyrstu hafa verið efins um þessa ráðstöfun.

Anna Bergrós segir óvíst að farið hefði verið í þessar endurbætur á þessum tímapunkti nema af því að þörf fyrir leikskólarými var orðin svo brýn. „Vænlegra þótti að nota fé í varanlega fjárfestingu heldur en bráðabirgðalausn þar sem ekkert stendur eftir þegar nýr leikskóli hefur verið reistur.“

Áhersla á aðrar list- og verkgreinar

Smíðakennari við Oddeyrarskóla lét af störfum um áramót en hann var í lágu starfshlutfalli, 20% starfi og var ákveðið að auglýsa ekki eftir nýjum kennara heldur leggja áherslu á aðrar list- og verkgreinar þess í stað. Smíðastofan hafi verið léleg, loftgæði slæm og hún í raun ónothæf sem kennslustofa. Hugmyndin hafi verið að minnka smíðastofuna og útbúa rými fyrir annars konar nýsköpun, upplýsinga- og tæknivinnu og skapa þannig fjölbreyttara námsumhverfi.

Fram kemur í bréfi skólastjóra að nemendur muni næstu ár vissulega missa af því að handleika efnivið og verkfæri, en reynt verði að halda úti litlu rými undir vinnuaðstöðu fyrir fámenna hópa á meðan smíðakennsla liggur niðri. Unglingum muni gefast kostur á að velja smíðar og hönnun sem valgrein.

Nýjast