20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Aukin aðsókn í leikskólann Krummakot í Eyjafjarðarsveit
Aukinni aðsókn í leikskólann Krummakot verður mætt með því að kaupa húseiningar og reisa úr þeim viðbótarhús við núverandi leikskóla byggingu. Áætlaður kostnaður er um 25 milljónir króna. Verið er að byggja nýjan 1000 fermetra leikskóla í tengslum við Hrafnagilsskóla.
Hermann Ingi Gunnarsson oddviti sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar segir það ánægjulega þróun að aðsókn í leikskólann sé mikil um þessar mundir en það tengist því að íbúum er að fjölgar. Fleiri umsókn um leikskólavist fyrir næsta skólaár bárust en vant er og því var fyrirséð að vantaði húsnæði. Gamla leikskólabyggingin dugði ekki til að mæta þeirri fjölgun sem verður næsta haust. Nú eru að sögn Hermanns um 75 til 80 börn á leikskólanum.
Framkvæmdir við nýja leikskólabyggingu sem verður tengd við grunnskólann í Hrafnagili standa yfir og gert ráð fyrir að þeim ljúki á árunum 2024 til 2025. Þegar sú bygging verður tekin í notkun á næstu misserum segir Hermann að nægt húsnæði sé fyrir hendi.
Góð reynsla
„Við finnum að það er talsverður áhugi fyrir því að flytja í sveitarfélagið og það er gleðilegt. Sem stendur stöndum við frammi fyrir því að skorta húsnæði fyrir leikskólabörnin en við höfum fundið á því lausn sem við teljum farsæla. Húseiningar af þessu tagi hafa verið notaðar í Reykjavík og við skoðuðum hvernig þær komu út við leikskóla á Borgarnesi. Reynslan er góð og eftir notkun getum við ýmist nýtt þær í eitthvað annað eða selt þær,“ segir Hermann. Hann bætir við að engir biðlistar séu eftir leikskólaplássi í Eyjafjarðarsveit og þar sé mikill metnaður fyrir að veita góða þjónustu.