27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
„Atburðarás þingsins var í raun ótrúleg"
„Það er algjörlega óhæft að einstaklingar fari í ræðustól og tali niður til annara sem bjóða sig fram til embætta innan Alþýðusambandsins, líkt og gerðist nú í vikunni. Ég vil birta það sem sagt var þarna þegar ég hef fengið það í hendur og þá getur fólk dæmt um það hvort þetta sé sú orðræða sem við viljum sjá frá forystunni,“ segir Trausti Jörundarson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar en hann bauð sig fram í embætti 2. varaforseta á þingi Alþýðusambands Íslands sem frestað var í vikunni.
Trausti telur að mörgum muni reynast erfitt að takast á við þau verkefni sem framundan eru, þ.e. að ná sáttum og koma fram á ný sem ein heild. „Ég vona hinsvegar að það takist og fólk geri sér grein fyrir því að svona innanbúðarátök gera okkur ekkert gagn,“ segir hann. Að hans mati er meira um persónulegan ágreining að ræða fremur en málefnalegan og það eigi ekki heima innan veggja ASÍ. Sjálfur kveðst hann ekki átta sig á hver ágreiningsmálin séu og ekki fengið við því skýr svör.
„Atburðarás þingsins var í raun ótrúleg. Mótframboð í helstu embætti virtist riðla plani þeirra sem áður höfðu gefið kost á sér og í framhaldi fer eitthvað leikrit í gang sem fáir fengu að vita af og svo stíga þau hvert á fætur öðru í pontu og tilkynna að þau dragi framboð sín til baka. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að fólk sem talar endalaust um lýðræði og hvernig þau voru kosinn inn í sín félög með lýðræðislegum hætti dragi sig svo í hlé þegar það á að kjósa um embætti innan ASÍ vegna hræðslu um að ná ekki kjöri“
Trausti segir að hægt hefði verið að klára þingið, þar sem fulltrúar VR yfirgáfu ekki þingið nema rétt til að fylgja sínum formanni, þau voru mörg hver mætt aftur til þingsins á miðvikudeginum. „Mér skilst að rúmlega 67% fulltrúa hafi mætt á miðvikudeginum og því ekkert athugavert við það að klára þingið. Ég virði samt sem áður ákvörðunina að fresta þinginu þar sem það var meirihluti fyrir því.“
Hvað trúverðugleika verkalýðsforystunnar varðar eftir uppákomuna á ASÍ þinginu segir hann það sína skoðun að hún hafi ekki neitt að gera með verkalýðsforystuna í heild sinni.
„Þarna eru 3 einstaklingar sem öllu vilja ráða og með þeirra uppstillingu til embætta innan ASÍ þá hefði rödd okkar sem búum utan höfuðborgarinnar, Akranes og Reykjanes nánast horfið inní í hreyfingunni. Verkalýðshreyfingin er ekki bara á suðvestur horni Íslands, um það snérist mitt framboð, að landsbyggðin ætti fulltrúa.