Vonbrigði en höldum ótrauð áfram

Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands
Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands

„Þetta eru auðvitað vonbrigði. Beint flug á Norðurland breytir landslagi ferðaþjónustunnar, ekki síst að vetri til þar sem aðgengi að svæðinu gjörbreytist,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Niceair tilkynnti eins og kunngut er fyrir páska að það hafi gert hlé á flugi sínu til og frá Akureyri og áður hafði  þýska flugfélagið Condor frestað beinu flugi til Akureyrar um eitt ár.

Arnheiður segir að til lengri tíma litið sé þetta áfall fyrir ferðaþjónustuna og þróun á henni á svæðinu. Það taki þó tíma að byggja upp nýja flugleið frá erlendum mörkuðum og því hafi hópur erlendra ferðamanna sem nýtti sér flug með Niceair ekki verið orðin stór. „Við höldum ótrauð áfram að vinna að beinu flugi og erum nú í sumar með meira flug um Akureyrarflugvöll frá erlendum mörkuðum en nokkru sinni áður þar sem Voigt Travel og Edelweiss verða með flug annars vegar frá Rotterdam og hins vegar frá Zurich.

Sumarið lítur vel út, bókanir eru mjög þéttar og gistipláss víða fullbókað. Þó er enn hægt að fá gistingu í ýmsum stöðum, sérstaklega fyrir einstaklinga eða minni hópa. Það er því ekki hægt að segja að svæðið sé uppselt en við erum mjög ánægð með stöðuna og ekki síst hvað bókanir eru farnar að ná langt inn í veturinn sem er alltaf markmiðið,“ segir Arnheiður.

 

Nýjast