Anna Júlíusdóttir nýr formaður Einingar-Iðju Tekst full af eldmóði á við stór, krefjandi verkefni sem framundan eru

Anna Júlíusdóttir nýr formaður Einingar Iðju með Tryggva Jóhannssyni formanni Matvæla- og þjónustude…
Anna Júlíusdóttir nýr formaður Einingar Iðju með Tryggva Jóhannssyni formanni Matvæla- og þjónustudeildar sem nú tekur við sem varaformaður félagsins út starfsárið.

„Það eru mörg,  stór og krefjandi verkefni framundan sem takast þarf á við, en ég er full af eldmóði og hef mikinn áhuga fyrir verkalýðsmálum. Ég brenn fyrir því að vinna að bættum hag verkafólks og að staða þess verði sem allra best,“ segir Anna Júlíusdóttir nýkjörinn formaður Einingar Iðju sem starfar á Eyjafjarðarsvæðinu, frá Siglufirði og að Grenivík. Félagsmenn eru um 8 þúsund talsins og er félagið stærsta verkalýðsfélagið á landsbyggðinni.

Anna hefur frá árinu 2012 verið varaformaður Einingar Iðju og þekkir starfsumhverfið því vel. Hún er fædd og uppalinn á Siglufirði og hóf sinn starfsferil þar, m.a. við fiskvinnu. Anna flutti til Akureyrar árið 1994, þá rúmlega þrítug og hóf störf hjá ÚA.

Sá ljósið

„Minn bakgrunnur er í verkamannavinnu, ég starfaði alla tíð í fiski þar til ég kom til Einingar fyrir ríflega áratug. Mér fannst það í fyrstu frekar skrýtið, að leggja frá sér fiskskurðarhnífinn og fara að stara á tölvuskjá. Fannst ég einhvern veginn ekki verið að gera mikið gagn, því í fiskvinnunni eru allir meðvitaðir um að þeir eru að skapa verðmæti, gjaldeyristekjur fyrir Íslendinga. Mér fannst þetta eitthvað svo léttvægt miðað við fyrra starf, en sem betur fer sá ég ljósið. Við hjá Einingu Iðju veitum  okkar fólki góða og nauðsynlega þjónustu, það er mikilvægt líka. Ég sá fljótt að ég gerði gagn, þó ég væri ekki að skera fisk,“ segir Anna.

Hún segist taka við góðu búi, félagið standi vel og það sé öflugt. „Það verður mikill missir fyrir okkur þegar Björn hverfur af sjónarsviðinu en sem betur fer verður hann mér við hlið fram á haust. Það er mikill styrkur, því þekking hans á verkalýðsmálum er mjög yfirgripsmikil og ég hef heilmikið af honum lært um árin. Hann hefur verið óþreytandi að miðla mér af sinni þekkingu, þannig að ég hef gott veganesti þegar ég tek við stöðu formanns þessa góða félags,“ segir Anna.

Vill alltaf sjá hærri laun fyrir sitt fólk

Við blasi til nánustu framtíðar litið fjölmörg verkefni sem takast þurfi á við og kveðst hún óhrædd fara inn í þá baráttu sem nú sé framundan. Þar megi sem dæmi nefna vaxtaokur bankanna, verðhækkanir sem gjarnan séu réttlættar með mikilli verðbólgu en stærsta hagsmunamálið séu húsnæðismálin.

„Það er þannig að maður vill alltaf að sitt fólk fái hærri laun og reynir að vinna því brautargengi við kjarasamningsgerð. Alltaf vill maður sjá meira en í boði er, það er bara þannig,“ segir Anna. Núverandi samningar renna út í lok janúar á næsta ári og telur hún að aftur verið farið í gerð skammtímasamnings. Ekkert bendi til annars eins og háttar til í samfélaginu. Óvissan sé enn það mikil.

Margir lepja dauðann úr skel

„Það er víða erfitt, fólk nær ekki endum saman þó það vinni baki brotnu margt hvert og það er sárt að horfa upp á það. Verðbólga er í hæstu hæðum og við finnum fyrir afleiðingum stríðsins í Úkraínu, auk þess sem ekki er langt síðan við vorum að fást við heimsfaraldur. Róðurinn er því þungur og bara svo það sé sagt þá búa margir við þau nöpru kjör að beinlínis lepja dauðann úr skel,“ segir Anna.

Það að fólk nái ekki endum saman leiðir til óvissu sem veldur kvíða og vanlíðan og segir hún að því miður séu margir í þeirri stöðu að sjá ekki út úr þeim ógöngum sem þeir eru í. „Við munum leggja allt í að fá hækkun á lægstu laun, því fólk verður að geta lifað sómasamlegu lífi af launum sínum.“

 

Nýjast